Erlent

G20 lætur af andstöðu við verndarstefnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Stevem Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á G20-fundinum í Þýskalandi.
Stevem Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á G20-fundinum í Þýskalandi. Vísir/EPA

Fjármálaráðherrar tuttugu stærstu iðnríkja heims endurnýjuðu ekki heit sitt um að berjast fyrir frjálsum viðskiptum og gegn verndarstefnu á fundi þeirra í Þýskalandi sem lauk í dag. Ástæðan er andstaða bandarískra stjórnvalda.

G20-ráðherrarnir samþykktu á fundi sinum í fyrra að „berjast gegn hvers kyns verndarstefnu“ að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Í millitíðinni var Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna, meðal annars með fyrirheitum um að sekta fyrirtæki sem framleiða vörur sínar utan landsins.

Ályktunin sem fjármálaráðherrarnir samþykktu í lok fundar síns í Baden-Baden í dag fjallar ekkert um frjáls viðskipti eða baráttu gegn verndarstefnu.

Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði að fundurinn hafi ratað í öngstræti þegar kom að frjálsum viðskiptum. Ekki hafi verið hægt að þvinga fulltrúa einstakra ríkja til þess að fallast á orðalag sem þeir voru ekki sammála.

Ekkert er heldur fjallað um baráttuna gegn loftslagsbreytingum af völdum manna í ályktuninni en Trump hefur boðað mikinn niðurskurð í umhverfismálum í Bandaríkjunum.

Ráðherrarnir hétu því hins vegar að berjast gegn skattaundanskotum, fjármögnun hryðjuverka og að efla einkafjárfestingar í Afríku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira