Erlent

Sendi flogaveikum blaðamanni Twitter-skilaboð til að valda flogi

Kjartan Kjartansson skrifar
Leiftrandi og blikkandi ljós getur valdið flogi hjá flogaveiku fólki.
Leiftrandi og blikkandi ljós getur valdið flogi hjá flogaveiku fólki. Vísir/Getty

Flogaveikur blaðamaður Newsweek sem hefur verið gagnrýninn á Donald Trump fékk flog eftir að honum voru send skilaboð með leiftrandi myndum á Twitter gagngert til að valda honum flogi.

Karlmaður í Maryland-ríki var handtekinn í gær og sakaður um ofsóknir á netinu. Hann sendi blaðamanninum Kurt Eichenwald skilaboð á Twitter með leiftrandi ljósum og orðunum „þú átt skilið að fá flog fyrir færsluna þína“. Eichenwald fékk flog þegar hann opnaði skilaboðin.

Eichenwald hafði skrifað í Newsweek um að hann þjáðist af flogaveiki. Hann rekur árásina til atburða frá því á síðasta ári samkvæmt frétt Washington Post.

Eftir að hann birti grein um hagsmunaárekstra Donalds Trump í október segist Eichenwald hafa fengið myndband sent á Twitter en það innihélt leiftrandi ljós, blikkandi hringi og mynd af teiknimyndafígúrunni Pepe froski sem hefur orðið að nokkurs konar tákni hvítra öfgahægrimanna í Bandaríkjunum.

Eichenwald taldi að myndbandinu hafi verið ætlað að valda honum flogi en hann náði að forðast það með að kasta spjaldtölvunni sem hann opnaði skilaboðin á í gólfið. Hann fékk sambærileg skilaboð 15. desember sem ollu honum flogi.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að við leit hjá manninum sem var handtekinn hafi fundist aðgangur að skýþjónustu Apple. Á honum hafi fundist skjáskot af Wikipedia-færslu um Eichenwald. Því hafði verið breytt til að sýna að blaðamaðurinn hefði látist 16. desember.
Fleiri fréttir

Sjá meira