Erlent

Chuck Berry fallinn frá

Bjarki Ármannsson skrifar
Gítarleikarinn var lifandi goðsögn í rokkheiminum.
Gítarleikarinn var lifandi goðsögn í rokkheiminum. Vísir/Getty

Chuck Berry, einn vinsælasti og áhrifamesti tónlistarmaður tuttugustu aldarinnar, er látinn, níutíu ára að aldri. Frá þessu greinir lögregla í Missouri í Bandaríkjunum.

Berry var söngvari, gítarleikari og lagahöfundur sem átti stóran þátt í því að móta rokktónlist með vinsælum lögum á borð við Maybellene, Johnny B. Goode og Roll Over Beethoven á sjötta áratugnum. Vinsælar rokkstjörnur á borð við Elvis Presley, Pete Townshend og Angus Young sóttu innblástur í gítarleik og sviðsframkomu Berry í marga áratugi á eftir.

Hann fæddist í borginni St. Louis árið 1926 og sat í fangelsi á unglingsárum fyrir vopnað rán áður en hann sló í gegn sem tónlistarmaður. Hann hlaut sömuleiðis þriggja ára fangelsisdóm árið 1962 fyrir að ferðast einn milli ríkja með stúlku undir lögaldri.

Berry var meðal fyrstu tónlistarmannanna sem vígðir voru inn í frægðarhöll rokksins þegar hún opnaði á níunda áratugnum og hlaut heiðursverðlaun Grammy fyrir ævistarfið árið 1984. Hann lenti í fimmta sæti á lista bandaríska tónlistartímaritsins Rolling Stone yfir bestu tónlistarmenn allra tíma árið 2004.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira