Innlent

46 þúsund Íslendingar leystu út þunglyndislyf í fyrra

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Mikil aukning hefur orðið í ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum.
Mikil aukning hefur orðið í ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum.

Mikil aukning hefur orðið í ávísunum þunglyndislyfja hér á landi á undanförnum árum. Notendur slíkra lyfja eru nú rúmlega tuttugu prósent fleiri en árið 2012. Mest er aukningin hjá ungmennum á aldrinum fimmtán til nítján ára, en notendur þunglyndislyfja á þessum aldri eru nú rúmlega sextíu prósent fleiri en fyrir fjórum árum.

Þetta kemur fram í samantekt sem embætti Landlæknis birti á vef sínum fyrir helgi. Árið 2016 leystu rúmlega 46.000 einstaklingar út þunglyndislyf á Íslandi en árið 2012 voru þeir 38.000. Það er aukning upp á 21,7 prósent á fjórum árum, sem verður að teljast mikið.

Mesta aukningin er hjá þeim sem yngri eru, en notendum á aldrinum fimmtán til nítján ára fjölgar um 62,2 prósent á þessum tíma. Hjá sama aldurshópi aukast skammtar þunglyndislyfja um 98,4 prósent frá 2012 til 2016. Árið 2012 fengu 444 börn undir átján ára aldri báðum lyfjunum ávísað á sama tíma, en árið 2016 var fjöldinn kominn í 769.

Árið 2013 var notkun þunglyndislyfja mest á Íslandi miðað við öll OECD lönd en þá var notkunin 203 prósent miðað við meðaltal OECD landa. Hæst hlutfall notenda á Íslandi er meðal eldra fólks en árið 2016 fengu um 38 prósent allra Íslendinga á aldrinum 85 til 89 ára ávísað þunglyndislyfjum og yfir 45 prósent þeirra sem eru níutíu ára og eldri.

Á vef landlæknis segir að það veki eftirtekt hve margir þeirra sem fá þunglyndislyfjum ávísað séu jafnframt að fá örvandi lyf, og er fjöldi þeirra sem eru á slíkri samhliða lyfjameðferð alltaf að aukast. Mikil notkun þessara lyfja á Íslandi sé umhugsunarverð og að læknasamfélagið þurfi að rannsaka hvort þunglyndi og kvíði séu algengari hér á landi en annarstaðar, eða hvort verið sé að ávísa þessum lyfjum óhóflega.


Tengdar fréttir

Eigum ennþá met í notkun ADHD-lyfja og neyslan vex

Íslendingar eiga ennþá Norðurlandametið í notkun á ADHD-lyfjum. Átta þúsund manns fá á ári hverju ávísað lyfjum eins og rítalíni og concerta. Skýrar vísbendingar eru um misnotkun þessara lyfja og þau eru vinsæl hjá sprautufíklum. Íslendingar eiga líka met í ávísunum á amfetamín.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira