Erlent

N-Kóreumenn hreykja sér af sögulegum árangri í þróun eldflauga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/EPA

Samkvæmt fregnum frá ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu í dag, hefur her landsins náð því sem kallað er „sögulegur árangur“ í þróun eldflaugatækni. CNN greinir frá.

Eldflaugatæknin sem um er að ræða er sérstök vél sem knýja á slíkar eldflaugar, en Norður-Kórea hafði fram að þessu ekki tekist að framleiða slíka tækni upp á eigin spýtur. Í ríkisfjölmiðli Norður-Kóreu er sagt að um stórsigur sé að ræða en talið er ljóst að landið sé að reyna að þróa langdrægar kjarnorkueldflaugar.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillersson, var staddur í Kína um liðna helgi þar sem hann hitti fyrir Wang Yi, utanríkisráðherra Kína og voru málefni Norður-Kóreu þar ofarlega á baugi en Kínverjar hvetja til stillingar vegna málsins.

Japanir, í næsta nágrenni við Norður-Kóreu, hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna þessa og er japönskum borgurum nú kennt hvernig bregðast skal við, ef Norður-Kóreumenn skjóta eldflaugum sínum á Japan.
Fleiri fréttir

Sjá meira