Enski boltinn

Jafntefliskóngarnir loksins komnir upp úr hjólfarinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jesse Lingard fagnar marki sínu með Juan Mata og Ashley Young í 600. sigri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Eftir 19 vikur í 6. sæti deildarinnar færðist United loksins upp um sæti með sigrinum á Middlesbrough.
Jesse Lingard fagnar marki sínu með Juan Mata og Ashley Young í 600. sigri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Eftir 19 vikur í 6. sæti deildarinnar færðist United loksins upp um sæti með sigrinum á Middlesbrough. vísir/getty

Fagnaðarlæti José Mour­inho, stjóra Manchester United, eftir að Antonio Valencia gulltryggði 1-3 sigur gegn Boro í gær gáfu til kynna hversu litlu mátti muna að Middlesbrough var nálægt því að næla í stig gegn United.

Eftir að Rudy Gestede minnkaði muninn í 1-2 undir lok leiksins bönkuðu heimamenn hressilega á dyr United og heimamenn voru ekki langt frá því að tryggja 11. jafntefli United á leiktíðinni. Með sigrinum hreyfðist United í fyrsta sinn upp töfluna frá því í nóvember en liðið situr nú í fimmta sæti.

Ekkert lið hefur gert fleiri jafntefli en United, eða tíu. Að sama skapi hefur ekkert lið tapað færri leikjum en United á tímabilinu og því auðvelt að færa rök fyrir því að jafnteflin hafi komið í veg fyrir að liðið hafi blandað sér af alvöru í baráttu um Englandsmeistaratitilinn. En hver er ástæðan fyrir öllum þessum jafnteflum? Af hverju hefur United ekki tapað leik frá því október án þess þó að komast upp úr 6. sætinu fyrr en nú?

Ferðalög, ferðalög, ferðalög
Það sem af er tímabili hefur ekkert lið á Englandi ferðast jafn mikið í útileiki og lið Manchester United. Vegna þátttöku liðsins í Evrópudeildinni hefur það þurft að ferðast á fjarlægari slóðir en almennt gerist á venjulegu tímabili. Það sem af er tímabili hafa leikmenn United ferðast um 20 þúsund kílómetra í útileiki í Evrópudeildinni, um tvöfalt lengri veg en Man­chester City, Tottenham, Arsenal og Leicester­ hafa ferðast vegna þátttöku sinnar í Evrópukeppnum.

Chelsea hefur siglt lygnan sjó á toppi deildarinnar og leikmenn Liverpool hafa verið sprækari en oft áður á þessu tímabili. Ef til vill má að einhverju leyti skrifa það á að liðin taka ekki þátt í neinni Evrópukeppni og þurfa því ekki að ferðast nema innan Englands. Raunar var ferðalag Manchester United fram og til baka frá Rostov í Rússlandi vegna viðureignar United við FC Rostov í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar lengra en öll ferðalög Chelsea í útileiki á tímabilinu til samans.

Á meðan leikmenn helstu andstæðinga United geta hvílt sig á milli leikja eru leikmenn United oftar en ekki á ferðalagi. Að þessu leyti hafa liðin í toppbaráttunni haft samkeppnislegt forskot á United það sem af er tímabili. Þetta telur enda hefur liðið aðeins unnið fimm af þeim tíu leikjum sem hafa verið spilaðir helgina eftir að liðið spilaði í miðri viku í Evrópudeildinni.

Álag, álag, álag
Ástæðan fyrir öllum þessum ferðalögum er einfaldlega sú að United hefur gengið vel í bikarkeppnunum á þessu tímabili. Liðið er langt komið í Evrópudeildinni, fór alla leið í Deildarbikarnum og datt út í átta liða úrslitum FA-bikarsins.  Liðið hefur spilað 47 leiki í öllum keppnum það sem af er tímabili, flest allra liða í deildinni og tólf leikjum fleiri en topplið Chelsea.

Að sögn Mourinho hefur tímasetning leikja United um helgar eftir leiki í Evrópukeppnum verið slæm hingað til og kvartaði hann sáran yfir því að leikurinn gegn Middlesbrough skyldi fara fram í hádeginu í gær eftir að liðið spilaði seint á fimmtudagskvöld. Var hann harðorður í garð enska knattspyrnusambandsins.

„Ég held að þeim sé drullusama um ensk lið í Evrópukeppnum. Í öðrum löndum reyna menn að veita þessum liðum aðstoð,“ sagði Mourinho.

Hafi Mourinho þó fundist álagið vera mikið hingað til ætti  hann ekki að líta á dagskrána fram undan. Fari liðið alla leið í úrslitaleik Evrópukeppninnar mun liðið spila sextán leiki á næstu 65 dögum, það er einn leikur á fjögurra daga fresti. Á sama tímabili mun Arsenal spila að hámarki tíu leiki og Liverpool níu leiki. Leið United í Meistaradeildina virðist því vera þyrnum stráð.

Ólseigir en meira þarf til
Miðað við dagskrána sem liggur fyrir ætti United að eiga í basli með að landa einu af meistaradeildarsætunum fjórum. Stuðningsmenn United geta þó huggað sig við það að Mourinho hefur tekist að gera liðið ólseigt enda er liðið taplaust í deildinni í síðustu átján deildarleikjum.

Á síðasta tímabili tapaði United tíu leikjum og Mourinho hefur því að mestu leyti tekist að snúa tapleikjunum í jafntefli. Það er mikil framför frá síðasta tímabili. Betur má þó ef duga skal og Mourinho var ekki ráðinn til þess að gera jafntefli. Á næsta leiktímabili þarf hann að snúa jafn­teflunum í sigra. Lykilatriði í því er að liðið þurfi ekki að takast á við Evrópudeildina og öll þau ferðalög sem henni tengjast. Stóra spurningin er hvort álagið muni gera út um þær vonir og festa Manchester United í hjólfari Evrópudeildarinnar um fyrirsjáanlega framtíð.


Tengdar fréttir

Llorente fær Gylfa til þess að blómstra

Fernando Llorente hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir stjórn Pauls Clement hjá Swansea. Hann vinnur einstaklega vel með Gylfa Sigurðssyni og saman hafa þeir skotið Swansea úr botnsætinu.

Víkingaklappið boðar bara vandræði á Anfield

Aðra helgina í röð hljómaði víkingaklappið á Anfield eftir ósigur heimaliðsins fyrir Íslendingaliði. Jón Daði Böðvarsson fékk mikið hrós fyrir innkomu sína gegn Liverpool og var mjög óheppinn að skora ekki. Hjólin hafa losnað undan Liverpool-vagninum í janúar en liðið er án sigurs í deildinni og fallið úr báðum bikarkeppnunum.

Pirraður Pep loksins að glíma við mótlæti

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, stendur nú frammi fyrir fyrsta raunverulega mótlæti ferils síns. Liðið tapaði illa í toppslagnum gegn Chelsea á laugardaginn og hefur ekki unnið heimaleik frá því í september. Varnarleikur Man. City hefur verið slakur en liðið hefur aðeins tvisvar haldið hreinu í fjórtán deildarleikjum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira