Körfubolti

Formaður KKÍ um innherjaupplýsingarnar: „Getur haft alvarlegar afleiðingar“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. vísir/vilhelm

„Þetta er því miður eitthvað sem við höfum verið með áhyggjur af í nokkurn tíma og að sama skapi hlutur sem við höfum verið að ræða um við félögin.“

Þetta segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, um innherjaupplýsingar sem leikmenn í Domino´s-deild karla láta af hendi til tveggja manna sem síðan selja þær á veðmálaáskriftasíðu sinni. Vísir fjallaði um málið í morgun.

„Hagræðing úrslita er það sem við höfum mestar áhyggjur af en það virðist ekki tengjast þessu. Það er samt alvarlegt þegar verið er að hafa samband við leikmenn deildarinnar til að geta staðið sig betur í veðmálastarfsemi,“ segir Hannes.

„Þetta tengist allt saman þessari miklu vá sem vofir yfir íþróttahreyfingunni sem við höfum til dæmis talað um á fundi með leikmönnum og foreldrum yngri landsliða.“

Það er ekki að ástæðulausu að KKÍ ræði þessi málefni við yngri kynslóðina. Fyrir nokkrum árum komst það upp að leikmanni U16 ára landsliðs Íslands var boðin nýjasta tegund snjallsíma fyrir að brenna af vítaskoti í landsleik.

„Það er töluvert um að verið sé að veðja á yngri landsliðin. Við ræðum þetta alltaf á fundi á milli jóla og nýárs með leikmönnum og foreldrum. Þar snýst ein glæran einungis um það að láta okkur vita af einhver hefur samband við krakkana sem teljast óeðlileg samskipti,“ segir Hannes.

Hannes segir hagræðingu úrslita ekki eiga við í tilvikinu sem Vísir skrifaði um í morgun en þetta sé eitthvað sem KKÍ þurfi að taka alvarlega fyrir og spyrja sig hvaða reglur sé hægt að móta fyrir félögin og leikmennina.

„Veðmál eru komin til að vera. Það er enginn svo barnalegur að halda að svo sé ekki. Þess vegna þarf körfuboltafólk að passa sig alveg ofboðslega mikið,“ segir formaðurinn.

„Ég hvet alla, hvort sem það eru leikmenn, þjálfarar eða stjórnarmenn, að gefa sem minnstar upplýsingar um sín lið ef einhver hefur samband. Á einhverjum tímapunkti getur þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið persónulega eða þeirra lið,“ segir Hannes S. Jónsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira