Erlent

Malasísk yfirvöld reka sendiherra Norður-Kóreu úr landi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kim Jong-nam er talið hafa verið byrlað með stórhættulegu taugaeitri.
Kim Jong-nam er talið hafa verið byrlað með stórhættulegu taugaeitri. Vísir/getty
Malasísk yfirvöld hafa ákveðið að reka sendiherra Norður Kóreu úr landi, eftir að umræddur sendiherra gagnrýndi rannsóknina á morðinu á Kim Jong-nam. BBC greinir frá.

Sendiherrann, sem ber nafnið Kang Chol, er gert að yfirgefa landið innan 48 klukkustunda, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Malasíu.

Ráðuneytið hafði áður krafist afsökunarbeiðni á ummælum sendiherrans, sem sagði að yfirvöldum þar í landi væri ekki treystandi til þess að fara með rannsókn á morðinu. Hann segir að rannsókn málsins sé orðin of pólitísk og að utanaðkomandi þrýstingur á stjórnvöld skemmi fyrir.

Tvær konur eru í haldi vegna morðsins en fram hefur komið að þær hafi haldið að þær væru að taka þátt í sjónvarpshrekki þegar þær spreyjuðu taugaeitri framan í Kim Jong-nam. Rannsókn málsins heldur áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×