Sport

Haraldur Nelson: Hvenær á að hætta þessu? Þegar að einhver deyr?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haraldur Nelson með syni sínum Gunnari Nelson.
Haraldur Nelson með syni sínum Gunnari Nelson. vísir/böddi tg

Ekkert varð af bardaga Rússans Khabib Nurmagomedov og Bandaríkjamannsins Tony Ferguson um bráðabirgðatitilinn í léttvigt í UFC um síðustu helgi þar sem bruna þurfti með Nurmagomedov á sjúkrahús tveimur dögum fyrir bardagakvöldið.

Nurmagomedov fór illa út úr niðurskurðinum fyrir bardagann en síðasta vikan áður en haldið er í búrið snýst að mestu leyti um að missa þau kíló sem til þarf að fá að keppa.

Sumt bardagafólk gengur alltof langt í þessu og fór Rússinn ansi illa með sjálfan sig að þessu sinni. Hann stoppaði ekki lengi við á spítalanum en Nurmagomedov var sendur aftur heim eftir stutta meðferð sama kvöld og hann lagðist inn.

Haraldur Dean Nelson, faðir og annar umboðsmanna Gunnar Nelson, hefur lengi verið á móti þessum svakalega niðurskurði sem er lífhættulegur. Gunnar hefur aldrei þurft að missa nema fáein kíló fyrir sína bardaga og fer ávallt létt með það.

Haraldur lét í sér heyra þegar bardagakonan Cris Cyborg þurfti að skera sig niður um ellefu kíló á fjórum dögum á síðasta ári. Þar var öllum brögðum beitt og var hún meðal annars sett á pilluna í aðdraganda bardagans.

„Þetta er svo yfirgengilega og ótrúlega heimskt. UFC verður að stöðva þetta áður en einhver deyr við að skera sig niður fyrir bardaga,“ sagði Haraldur á Facebook-síðu sinni á þeim tíma.

Honum var heldur ekki skemmt að sjá fréttirnar af Nurmagomedov. Hann deilir frétt UFC um málið á Facebook og skrifar: „Byrjar þetta aftur! Hvenær á að hætta þessum svakalega niðurskurðar kjaftæði? Þegar að einhver deyr?“

Haraldur ræddi þessi mál einnig í ítarlegu viðtal við MMAViking.com fyrir tveimur árum síðan en það má finna hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira