Viðskipti innlent

Þrír stjórnarmenn hverfa á braut

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir vísir/ernir
Tveir stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna og einn stjórnarmaður í Birtu lífeyrissjóði sögðu sig úr stjórnum sjóðanna frá og með gærdeginum.

Þetta er Úlfar Steindórsson og Anna G. Sverrisdóttir sem er varastjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna og stjórnarmaður í HB Granda. Síðan er það Anna Guðný Aradóttir sem er stjórnarmaður í Birtu og situr í stjórn Vodafone.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir að þessir fyrrgreindu stjórnarmenn lífeyrissjóðanna hafi sagt sig úr stjórnunum að eigin frumkvæði vegna þess að þeir sitja einnig í stjórnum skráðra hlutafélaga. Það samræmist ekki nýjum reglum Samtaka atvinnulífsins sem tóku gildi um áramótin.

Úlfar Steindórsson var kosinn stjórnarformaður Icelandair Group í lok síðustu viku, þótt hann væri stjórnarmaður í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þegar Fréttablaðið benti honum á föstudaginn á að setja báðum stjórnum væri andstæð reglum SA kvaðst hann ekki vita af þeim. „Hefði ég vitað af þeim hefði ég sagt svo,“ sagði Úlfar.

Samtök atvinnulífsins telja að betur hefði mátt standa að kynningu á reglunum til stjórnarfólks. „Stjórnarmönnum okkar, sem sitja i stjórnum lífeyrissjoðanna, voru ekki kynntar þessar reglur og það er bara handvömm okkar. Það verður að segjast eins og er,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður Samtaka atvinnulífsins.

Halldór Benjamín Þorbergsson sagði aftur á móti á sama tíma að reglurnar hefðu ekki verið hugsaðar fyrir eldri stjórnarmenn. „Við hugsuðum reglurnar fyrir nýja stjórnarmenn sem við myndum skipa eftir setningu reglnanna en ekki fyrir eldri stjórnarmenn,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Reglurnar eiga ekki við um formann Icelandair

Nýr stjórnarformaður Icelandair er í stjórn LV tilnefndur af SA þótt reglur SA séu að þeir sem samtökin tilnefnir í lífeyrissjóði sitji ekki í stjórn félaga þar sem sjóðurinn beitir atkvæðisrétti í stjórnarkjöri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×