Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 30-21 | FH-ingar fengu skell í Eyjum

Gabríel Sighvatsson í Eyjum skrifar
Það er mikið undir hjá Kára Kristjáni og félögum í ÍBV í kvöld.
Það er mikið undir hjá Kára Kristjáni og félögum í ÍBV í kvöld. vísir/eyþór

Eyjamenn blésu í herlúðranna og sendu sterk skilaboð til annarra liða í Olís-deildinni með öruggum níu marka sigri á FH í Olís-deild karla en leiknum lauk með 30-21 sigri Eyjamanna í Eyjum.

Ákveðið var að spilað yrði í nýja salnum aftur til að fá fleiri áhorfendur á leikinn og það má segja að það heppnaðist fullkomlega. Allt var troðið og stemningin var mögnuð sem hjálpaði Eyjamönnum klárlega þegar á hólminn var komið.

Bæði liðin fóru með gott veganesti inn í leikinn, sigrar í síðustu umferð og í raun voru liðin bæði taplaus á árinu 2017. Það var ekki að sjá að liðin væru svona jöfn í deildinni því lokatölur voru 30-21 fyrir heimamenn sem gjörsigruðu Hafnfirðingana.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn og spennandi. FH byrjaði betur og komst í þriggja marka forystu sem ÍBV sneri svo við. Það fór svo að Eyjamenn skoruðu flautumark og leiddu því 14-13 í hálfleik.

Í seinni hálfleik breyttist allt. ÍBV stakk gestina af og virkuðu þeir kraftlausir. Vörnin og markvarslan hjá Eyjamönnum var geggjuð en FH skoraði einungis 8 mörk í seinni hálfleik.

Stephen Nielsen átti stjörnuleik og var með 25 varin skot í leiknum. Theodór var eins og oft áður markahæstur með 8 mörk.

Hjá FH náði enginn sér á strik í dag. Vörnin fór út um þúfur í síðari hálfleik og markvarslan þar með. Það sem var undravert við varnarleikinn hjá þeim var hinsvegar sú staðreynd að liðið fékk ekki á sig neina tveggja mínútna brottvísun.

Næstu leikir liðanna eru gegn liðum í botnbaráttu, ÍBV tekur á móti Stjörnunni eftir viku og FH fær Fram í heimsókn.

Arnar: Erum að taka tröppurnar upp á við

Arnar Pétursson var heldur betur ánægður með sína menn að leikslokum en ÍBV er núna eina liðið sem er enn ósigrað á þessu ári.

„Ég er mjög ánægður með leikinn í dag og þær framfarir sem eru í gangi hjá okkur. Við erum að taka tröppurnar eins og við viljum og erum að bæta okkur leik eftir leik.“

Í dag var ákveðið að spila í stóra salnum en undanfarið hefur gamli salurinn verið notaður meira þar sem dúkurinn í hinum salnum er orðinn ansi slakur.

„Já, við vitum að við eigum frábæra áhorfendur og þeir vilja vera í stóra salnum. Það er vika í næsta leik þannig að við ákváðum að gefa þessu séns, að menn fái tíma til að jafna sig eftir dúkinn sem er allavega ekki góður og það skilaði sér í dag.“

Varnarvinna Eyjamanna var mögnuð í dag og FH-ingar skoruðu aðeins 8 mörk í seinni hálfleik.

„Maggi (Stefánsson) og Sindri (Haraldsson) voru frábærir, öll varnarvinnan og markvarslan var frábær. Sindri og Maggi eru stórkostlegir varnarmenn og að mínu mati þeir bestu í deildinni, þeir sýndu það hérna í dag og þeir eru okkur gríðarlega mikilvægir. Maggi var með niðurgang í tvo daga og kemur svo og klárar þennan leik,“ sagði Arnar en það var smá flensa að hrjá suma í hópnum fyrir leik.

Stephen Nielsen var annar maður sem stóð sig frábærlega, var með 25 varða bolta í leiknum.

„Stephen er mikilvægur í hópnum, í seinasta leik kom Kolli inn og kláraði þann leik eins og höfðingi en ég vil ekki setja þetta þannig að munurinn á þessum leik og hinum leikjunum gegn FH sé Stephen. Við erum bara hægt og rólega að bæta okkur eftir hvern leik. Stephen var frábær í dag og hjálpaði okkur klárlega að vinna þennan leik.“

Arnar hrósaði liði FH að leikslokum.

„Þeir eru frábærir og eru með virkilega gott lið og frábæran þjálfara. Það sést á liðinu að þetta er gott lið og þess vegna er ég gríðarlega sáttur við okkar leik í dag. Þeir gáfu aðeins eftir og gáfust eiginlega bara upp þegar 8-9 mínútur voru eftir og við kláruðum þetta sannfærandi.“ sagði Arnar að lokum.

Halldór Jóhann: Fengum á lúðurinn

Halldór Jóhann Sigfússon var ekki alls kostar sáttur við sína menn eftir skellinn sem þeir fengum í Eyjum.

„Þetta er allt of stórt tap. 14-13 í hálfleik, ég veit bara ekki hvað gerðist í seinni hálfleik. Við komum ekki út úr hálfleiknum, mér fannst þetta í raun bara sorgleg frammistaða í seinni hálfleik, það var flott umgjörð hérna til að eiga flottan leik en við fengum á lúðurinn,“ sagði Halldór.

Markvarslan var eitt af mörgu sem var í toppstandi hjá ÍBV í dag á meðan hlutirnir gengu ekki jafn vel fyrir sig hjá gestunum.

„Mér fannst varnarleikurinn vera góður lengst af en við erum ekki með neina markvörslu. Við erum með sjö bolta varða á meðan hann (Stephen Nielsen) er með 20 og eitthvað hinum megin,“ sagði Halldór og hélt áfram:

„Svo erum við slakir sóknarlega, ég veit ekki hvað við klúðrum mörgum dauðafærum og tökum fullt af röngum ákvörðunum. Við spilum okkur í raun út úr leiknum, hættum að gera þá hluti sem hafa einkennt okkur í vetur og skiluðu okkur í 2. sæti. Þegar við erum í svona gír lítum við ekki út fyrir að vera lið í 2. sæti.“

Halldór var sérstaklega ósáttur með hversu stórt lið hans tapaði.

„Þetta er stór skellur, ég veit ekki hvort menn héldu að þeir væru komnir lengra en við erum í raun. Þú getur alveg komið til Eyja og tapað, þeir eru auðvitað með frábært lið en þú þarft ekki að tapa með níu mörkum,“
Fleiri fréttir

Sjá meira