Innlent

Bjóða 500 þúsund krónur fyrir upplýsingar um stolið málverk

Höskuldur Kári Schram skrifar
Fjölskylda Karólínu Lárusdóttur listakonu hefur ákveðið að bjóða 500 þúsund krónur í verðlaun til að geta endurheimt sjö málverk sem innbrotsþjófar stálu um síðustu jól. Sonur listakonunnar segir nánast útilokað fyrir þjófana að koma þessum listaverkum í verð hér á landi.

Verkunum var stolið þegar brotist var inn í geymslu listakonunnar við Vatnsstíg. Ekki liggur fyrir hvenær innbrotið var framið en talið er að það hafi átt sér stað einhvern tímann á tímabilinu 23. til 28. desember.

Þjófarnir tóku með sér sjö ókláruð málverk eftir Karólínu en snertu ekki við öðrum hlutum í geymslunni. Stephen Lárus Stephen, sonur Karólínu, segir augljóst að innbrotið hafi verið mjög skipulagt. Hann segir nánast útilokað fyrir þjófana að koma verkunum í verð hér á landi.

Fjölskyldan hefur ákveðið að bjóða 500 þúsund krónur í verðlaun fyrir upplýsingar sem geta hjálpað henni að endurheimta verkin.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×