Sport

Bjarki með öruggan sigur í fyrsta bardaga

Bjarki lét andstæðinginn finna fyrir því.
Bjarki lét andstæðinginn finna fyrir því. Mjölnir/Sóllilja Baltasars

Bjarki Pétursson sigraði sinn fyrsta áhugamannabardaga í MMA í kvöld gegn enska bardagakappanum Joey Dakin en bardaginn fór fram í Liverpool hjá bardagasamtökunum Shinobi War.

Bardaginn fór að mestu fram standandi en Bjarki náði þó nokkrum fellum og endaði bardaginn þegar Bjarki var kominn með yfirburðastöðu. Var bardaginn harður en Bjarki sigraði með einróma dómaraákvörðun.

Bjarki sem er 28 ára gamall er fæddur og uppalinn á Ísafirði en flutti til Reykjavíkur til að æfa bardagaíþróttir hjá Mjölni.

Hefur Bjarki æft bardagaíþróttir í 3 ár og verið í keppnisliði Mjölnis undanfarin tvö ár. Var þetta fimmti áhugamannabardagi Dakin en Bjarki vann öruggan sigur í fyrstu tilraun.

„Þetta var það sem ég var búinn að sjá fyrir mér.” sagði Bjarki en lagið sem kom undir er hann gekk inn vakti athygli. Lagið sem varð fyrir valinu var Stingum af með Mugison.

„Þetta lag fer með mig í ferðalag aftur heim til Ísafjarðar. Það fær mig til að muna hver ég er og af hverju ég er að þessu. Þó ég búi í Rekjavík þá verð ég alltaf Ísfirðingur!“ sagði Bjarki í viðtali við MMA fréttir.

Mjölnir/Sóllilja Baltasars


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira