Körfubolti

Ingi Þór um skíðaferð Ívars: „Strákunum finnst þetta óvirðing við sig“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson skilur að menn þurfi frí en finnst tímapunkturinn skrítinn.
Ingi Þór Steinþórsson skilur að menn þurfi frí en finnst tímapunkturinn skrítinn. vísir/ernir

„Mér finnst þetta hálf sorglegt. Persónulega gæti ég ekki farið í frí frá liðinu,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells í Domino´s-deild karla í körfubolta, um skíðaferð Ívars Ásgrímssonar, þjálfara Hauka, sem er þess valdandi að hann missir af leik liðanna á fimmtudaginn.

Ívar, sem kom Haukum í úrslitaeinvígið á síðustu leiktíð en berst nú við fallið tæpu ári síðar, pantaði sér ferðina síðasta sumar. Hann er mjög ósáttur við umfjöllun Domino´s-Körfuboltakvölds um ferðina og skrifaði út af henni langan pistil á Facebook-síðu sína.

Þar segir Ívar meðal annars: „Þessi ferð var ákveðin í sumar og var tíminn valinn sérstaklega, ekki fyrir bikarhelgi og nægur tími fyrir úrslitakeppni. Þessi leikur sem ég missi af, heimaleikur, hefði kannski verið sá leikur sem ég gæti verið frá.“

Leikurinn sem Ívar „gæti verið frá“ er þessi leikur gegn Snæfelli sem er ekki búið að vinna leik á tímabilinu en því var spáð botnsætinu og sást í raun síðasta sumar hvert stefndi miðað við leikmannamál Hólmara.

Síðasta umræðuefni Framlengingar í Körfuboltakvöldi var skíðaferð Ívars:

Viðtal sem Hjörtur Hjartarson tók við Inga Þór verður spilað í Akraborginni í dag en þar spyr Hjörtur hvort skilaboðin með að velja þennan tímapunkt fyrir ferðina séu ekki undirliggjandi hjá Ívari.

„Þau eru bara vatn á okkar myllu. Við erum búnir að spila ágætlega að undanförnu og erum að leita að okkar fyrsta sigri. Fyrst og fremst erum við að reyna að spila betur og betur,“ segir Ingi Þór sem segir að svona hlutur kæmi aldrei til greina hjá honum.

„Þetta eru aðstæður sem ég persónulega myndi ekki setja mitt lið og mína leikmenn í. Það eru mjög fáir þjálfarar í deildinni sem myndu gera þetta, þó ég hafi nú ekki rætt við þá alla. Mér finnst þessi staða vera miður.“

Ingi Þór spyr sig hvort eitt gangi yfir alla hjá Haukunum. Hvað ef stjörnuleikmaður eins og Emil Barja myndi langa í fríið á miðju tímabili?

„Hvað ef Emil Barja myndi tilkynna það að hann ætlaði að skella sér í vikufrí með unnustu sinni? Ég hugsa að það yrði ekki tekið létt á því. Mér finnst þetta ekki gott fordæmi. Menn sem eru þarna í stjórnunarstöðu þurfa að setja gott fordæmi,“ segir Ingi Þór og bætir við:

„Strákunum [mínum] finnst þetta óvirðing við sig og nú er það þeirra að nýta sér það.“

Allt viðtalið verður spilað í Akraborginni sem er á X977 á hverjum virkum degi á milli 16 og 18.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira