Körfubolti

Fagnaði of snemma því hann átti eftir að lesa smáaletrið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hér sést strákur reyna miðjuskot en myndin tengist fréttinni þó ekki.
Hér sést strákur reyna miðjuskot en myndin tengist fréttinni þó ekki. Vísir/Getty
Jackson Logsdon hélt hann hefði unnið 38 þúsund dollara á dögunum þegar hann setti niður skot frá miðju í skotleik í kringum heimaleik kvennakörfuboltaliðs Louisville. Strákurinn fagnaði hinsvegar of snemma.

Jackson Logsdon er tvítugur. Hann hitti úr sniðskoti, vítaskoti, þriggja stiga skoti og setti að lokum niður skot frá miðju. Með því að hitta úr öllum þessum skotum þá áttu 38 þúsund dollararnir að vera hans en það eru rúmar fjórar milljónir íslenskra króna.

Jackson Logsdon fagnaði gríðarlega þegar síðasta skotið fór rétta leið enda munar um fjórar milljónir fyrir fátækan námsmann. Seinna um kvöldið kom þó í ljós að Louisville sleppur við að borga honum vinninginn þökk sé smáaletrinu.

Í smáaletrinu stóð að þátttakendur í skotleiknum máttu ekki hafa keppt í körfubolta undanfarin sex ár. Það hafði Jackson Logsdon gert og um leið braut hann reglur skotleiksins.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi ekki síst þar sem ég kem hingað úr öðru fylki. Þetta hefði farið langt með að borga námslánin og annað tengt náminu. Þetta var engu að síður frábær lífsreynsla og eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Súrsætt samt,“ sagði Jackson Logsdon í viðtali við Courier-Journal í Louisville sem fjallaði um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×