Körfubolti

Curry hitti ekki skoti fyrir utan en það kom ekki að sök | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Golden State Warriors vann fjórða leikinn í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þegar liðið lagði Philadelphia 76ers, 119-108, á útivelli. Golden State er búið að vinna átta af síðustu tíu leikjum sínum og er með fimm sigra forskot á toppi vesturdeildarinnar.

Saga leiksins var skelfileg nýting Steph Curry, bestu skyttu í sögu NBA-deildarinnar, fyrir utan þriggja stiga línuna. Hann hitti ekki úr einu af ellefu skotum sínum fyrir utan teiginn og bætti eigið met frá því fjórða nóvember í fyrra þegar hann klikkaði á öllum tíu skotum sínum fyrir utan.

Hann skoraði samt sem áður 19 stig þar sem hann hitti úr sjö af þrettán skotum sínum úr teignum og setti niður öll fimm vítaskotin.

Kevin Durant átti góðan leik og skoraði 27 stig auk þess sem hann tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en Klay Thompson skoraði 21 stig og hitti úr þremur af níu þriggja stiga skotum sínum.

Þrátt fyrir að vera með særindi í hálsi skoraði LeBron James 24 stig, tók tíu fráköst og gaf sex stosðendingar í 102-95 sigri meistara Cleveland Cavaliers á heimavelli gegn Milwaukee Bucks í nótt.

Kyrie Irving var stigahæstur Cavaliers með 25 stig auk þess sem hann gaf níu stoðsendingar og tók fjögur fráköst en Derrick Williams átti fína innkomu af bekknum og skoraði fjórtán stig.

Cleveland er sem fyrr á toppnum í austrinu með 41 sigurleik og 17 tapleiki en Boston kemur þar næst með 38 sigra.

Úrslit næturinnar:
NY Knicks - Toronto Raptors 91-92
Golden State Warriors - Philadelphia 76ers 108-119
Cleveland Cavaliers - Milwaukee Bucks 102-95
Boston Celtics - Atlanta Hawks 98-114
Dallas Mavericks 96-89
Houston Rockets - Indiana Pacers 108-117
Sacramento Kings - Minnesota Timberwolves 88-102

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira