Erlent

Breivik hefur skipst á bréfum við sænska konu frá 2012

Atli Ísleifsson skrifar
Sænsk kona hefur sent Anders Behring Breivik rúmlega 130 bréf frá árinu 2012 og hann hefur sjálfur sent henni um þrjátíu bréf.
Sænsk kona hefur sent Anders Behring Breivik rúmlega 130 bréf frá árinu 2012 og hann hefur sjálfur sent henni um þrjátíu bréf. Vísir/AFP

Norski hryðjuverkamaðurinn og fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik þarf að þola að vel sé fylgst með öllum þeim bréfum sem honum berast og sem hann sendir frá sér.

Ljóst er að mun fleiri bréf sem Breivik ritar eru stöðvuð af fangelsisyfirvöldum en þau sem honum berast. Hann er með myndir af fjölda kvenna uppi á vegg í klefa sínum.

Þetta kom fram í dómssal í fangelsinu í Skien í morgun þar sem réttarhöld í máli Breivik fara nú fram. Dómstóll dæmdi síðasta vor að norska ríkið hefði brotið gegn mannréttindum Breivik í fangelsi. Málsaðilar áfrýjuðu báðir dómnum og er málið nú tekið fyrir að nýju á hærra dómsstigi (lagmannsretten).

Í frétt Verdens Gang um málið segir að samskipti Breivik við umheiminn hafi verið til umræðu í dómssalnum í morgun.

Norski ríkissaksóknarinn Fredrik Sejersted sagði að Breivik geymi myndir af fjölda kvenna á korktöflu í klefa sínum. Þá sendi margar konur honum erótískar sögur, með Breivik og konunum sjálfum í aðalhlutverkum.

Í samskiptum við sænska konu
Fram kom að sænsk kona hafi sent honum rúmlega 130 bréf frá árinu 2012 og hann hafi sjálfur sent henni um þrjátíu bréf. Fyrir dómi var rætt um konuna sem „M“.

Hún er í hópi þeirra kvenna sem hafa sent myndir af sér og hefur hann ítrekað reynt að fá leyfi til að eiga í símasamskiptum við viðkomandi. „Þessi bréf eru dæmi um persónlegt samband sem hefur merkingu, í það minnsta af hennar hálfu,“ sagði Sejerstad, en slík bréf eru ekki stöðvuð af yfirvöldum.

Þegar Breivik var í gæsluvarðhaldi eftir ódæðið í júlí 2011 bárust honum engin bréf og gat hann heldur ekki sent nein bréf frá sér. Þessu banni var aflétt í nóvember sama ár og bárust honum í kjölfarið mikill fjöldi bréfa frá stuðningsmönnum.

Sejerstad segir að Breivik reyni að koma áróðri fyrir í nær öllum þeim textum sem hann sendir frá sér og því sé nauðsynlegt fyrir yfirvöld að fylgjast vel með. Enn fremur segir Sejerstad að Breivik vilji notast við einkamálaauglýsingar til að koma áróðri sínum á framfæri.

Breivik heilsaði að nasistasið við upphaf réttarhalda í máli hans gegn norska ríkinu í gærmorgun Vísir/AFP

Heilsaði ekki að nasistasið
Breivik heilsaði að nasistasið við upphaf réttarhalda í gærmorgun, en endurtók ekki leikinn í morgun.

Dómari var fljótur að bregðast við kveðju Breivik í gær og sagði hana móðgun við dóminn.

„Ég verð að biðja þig um að heilsa ekki aftur á þennan hátt,“ sagði dómarinn, sem Breivik virðist hafa tekið til greina.

Breytingar á aðstæðum Breivik
Greint var frá því í síðasta mánuði að norsk fangelsismálayfirvöld hafi gert breytingar sem snúa að aðstæðum Breivik í fangelsinu í kjölfar dómsins sem féll síðasta vor.

Þær breytingar voru meðal annars gerðar að rimlar eru nú milli Breivik og lögfræðings hans þegar þeir ræða saman, í stað glerveggjar. Þá hefur hann nú aukna möguleika á að hreyfa sig og dvelja undir berum himni á fangelsislóðinni.

Breivik höfðaði málið þar sem hann taldi mannréttindi sín meðal annars brotin vegna þess að hann væri ítrekað látinn sæta líkamsleit, væri í einangrun í 23 af 24 tímum sólarhringsins og vakinn á nóttunni. Þá fengi hann að hafa takmörkuð samskipti við annað fólk.

Í dómnum sem féll síðasta vor sagði að líkamsleitirnar og sú mikla einangrun sem Breivik hafi sætt væru brot á einu ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu.

Norska ríkið hélt því fram fyrir dómi ap fangelsisvist hans væri að fullu leyti í samræmi við lög og reglur. Nauðsynlegt væri að hann sætti mikilli öryggisgæslu þar sem hann væri sérstaklega hættulegur maður.

Breivik drap 77 manns árið 2011 í sprengingu í miðborg Óslóar og með því að skjóta alla þá sem á vegi hans urðu í Útey þar sem sumarbúðir ungliðadeildar Verkamannaflokksins fóru fram.

Hinn 37 ára Breivik var dæmdur í 21 árs fangelsi árið 2012 þó að ólíklegt þykir að hann muni nokkurn tímann verða sleppt.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira