Innlent

Danskur piltur fékk tveggja ára dóm fyrir að nauðga íslenskri stúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stúlkunni var nauðgað í bílskúr í Óðinsvéum í júlí 2015.
Stúlkunni var nauðgað í bílskúr í Óðinsvéum í júlí 2015. Wiki Commons

Sextán ára danskur piltur frá Óðinsvéum á Fjóni í Danmörku hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað fimmtán ára íslenskri stúlku í júlí 2015. Tvítugur vinur hans fékk eins og hálfs árs dóm en eitt ár af refsingunni er skilorðsbundinn. Pressan greindi fyrst frá og vísar í umfjöllun danskra miðla.

Báðir voru sakfelldir fyrir brot sín í september síðastliðnum og var þá reiknað með því að dómur yrði kveðinn upp í október. Uppkvaðningin dróst hins vegar þar til nú meðal annars vegna geðmats á yngri piltinum sem var fimmtán ára þegar brotið átti sér stað. Hann var metinn sakhæfur.

Var í leit að sígarettum
Í dönskum miðlum hefur komið fram að stúlkan, sem var í heimsókn hjá ættingjum sínum í Danmörku, hefði farið í göngutúr um hverfið að kvöldi til í þeim tilgangi að kaupa sígarettur. Hún hefði hitt tvo stráka sem hefðu lokkað hana að bílskúr þangað sem þeir neyddu hana inn.

Samkvæmt heimildum Vísis var um samantekin ráð þess tvítuga og fimmtán ára að ræða þar sem þeir voru í samskiptum með SMS-skilaboðum. Var stúlkunni þvingað inn í bílskúrinn af eldri piltinum og skömmu síðar mætti sá yngri þangað.


Stúlkan hefur sagst hafa verið neydd til munnmaka og kynmaka. Á sama tíma notaði eldri pilturinn vasaljósið á símanum til að lýsa upp dimman bílskúrinn. Sagði stúlkan ítrekað nei og sparkaði í þá á meðan henni var nauðgað.

Afar trúverðugur framburður
Jacob Thaarup, saksóknari í málinu, sagði vitnisburð stúlkunnar hafa verið afar trúverðugan en hið sama verði ekki sagt um frásögn piltanna sem breyttu endurtekið framburði sínum. Þeir neituðu báðir sök og sögðu stúlkuna hafa stundað kynlíf með þeim af frjálsum vilja.

Yngri pilturinn var sömuleiðis ákærður fyrir að nauðga sautján ára stúlku á göngustíg í Danmörku. Var hann sýknaður af ákæru þar sem ekki þótti hafið yfir allan vafa að hann hefði nauðgað stúlkunni þar sem frásögn hennar var óskýr. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira