Handbolti

Bjarki: Það er ekkert að mér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarki Már í leik með liði sínu, Füchse Berlin.
Bjarki Már í leik með liði sínu, Füchse Berlin. vísir/Getty

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson tók af allan vafa um það hvort hann myndi spila gegn Spánverjum á morgun er hann ræddi við blaðamann Vísis nú seinni partinn.

„Það er ekkert að mér,“ sagði Bjarki ákveðinn og ljóst að hann ætlar ekki að missa af stóru stundinni er HM hefst hjá íslenska liðinu á morgun.

„Þetta eru meiðsli í mjöðm sem ég varð fyrir í desember. Þau tóku sig upp í Ungverjaleiknum í Danmörku og ég varð verri en vanalega. Ég er orðinn góður núna og klár í bátana. Ég hef beitt mér að fullu á æfingunum hérna og eftir þær er enginn vafi - ég er klár.“

Fyrsti leikur Íslands er gegn Spánverjum annað kvöld og það er ekkert smá próf enda Spánverjar með eitt besta handboltalandslið heims.

„Við verðum bara að mæta klárir og fínt að byrja á þessum leik. Við eigum að fara bara „all in“. Það þýðir ekkert að vera hræddir við þá. Þetta eru bara gaurar eins og við sem við getum alveg unnið á góðum degi. Við förum ekki í neinn leik til að tapa. Við ætlum að reyna að vinna,“ segir Bjarki Már af mikilli ákveðni. Enginn beygur í honum.

Undirbúningur íslenska liðsins hefur ekki verið auðveldur þar sem leikmenn hafa verið tæpir, veikir og nú síðast fór Aron Pálmarsson heim vegna sinna meiðsla.

„Þetta truflar líklega undirbúninginn fyrir þjálfarann en það lenda öll lið í þessu. Það er mikið af meiðslum í flestum liðum og þetta er hluti af leiknum,“ segir Bjarki sem var tekinn fram yfir Stefán Rafn Sigurmannsson að þessu sinni og hann ætlar að nýta þau tækifæri sem munu gefast á mótinu.

„Vonandi fæ ég einhverjar mínútur og þá mun ég gefa mig allann í verkefnið. Ég ætla að njóta þess að vera hér enda beðið lengi eftir þessu tækifæri. Það væri skítt ef ég myndi ekki njóta þess í botn eftir að hafa beðið lengi.“

Íslenska liðið er ansi mikið breytt milli móta og margir bíða spenntir að sjá hvað guttarnir gera.

„Það er erfitt að segja hvað sé hægt að fara fram á af okkur hérna. Við höfum verið að bíða eftir Aroni og æfa án hans. Við verðum að taka einn leik í einu þó svo það sé klisja. Væntingarnar eru að fara upp úr þessum riðli og það tel ég vera raunhæft. Ég held það væri verst að lenda í fjórða því þá fáum við Frakka. Það væri frábært að lenda í þriðja og eiga möguleika í 16-liða úrslitunum.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Aron verður ekki með á HM

Það varð ljóst nú rétt fyrir hádegi að besti leikmaður íslenska handboltalandsliðsins, Aron Pálmarsson, verður ekki með á HM í Frakklandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira