Erlent

Trump hæðist að bandarísku leyniþjónustunni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna heldur áfram að efast um lögmæti þeirra upplýsinga sem bandarískar leyniþjónustustofnanir telja sig hafa undir höndum varðandi tölvuárásir Rússa. Trump hefur nú notað tækifærið og hæðst að bandarísku leyniþjónustunni í tísti. CNN greinir frá.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir eru sammála um þátt Rússa í tölvuárásum á Bandaríkin fyrir forsetakosningarnar en Trump hefur efast um sannleiksgildi þeirra upplýsinga.

Trump á að eigin sögn að mæta á föstudaginn á upplýsingafund um rússnesku tölvuárásirnar með forsvarsmönnum umræddra leyniþjónustustofnana. Samkvæmt Trump átti sá fundur hins vegar að fara fram í gær. Hann furðar sig á frestuninni á Twitter.

Í umræddri Twitter færslu sinni nýtir Trump jafnframt tækifærið til að hæðast að viðkomandi stofnunum með því að setja kaldhæðnislegar gæsalappir utan um ensku orðin „intelligence“ og „russian hacking.“

Um leið ýjar Trump að því að fundinum hafi verið frestað vegna þess að viðkomandi stofnanir þurfi að finna fleiri sönnunargögn til að styðja mál sitt og segir að fresturinn sé furðulegur.

Forsvarsmenn viðkomandi stofnanna hafa hins vegar sagt að tíst Trump sé afar furðulegt, þar sem enginn fundur hafi verið skipulagður á þriðjudaginn, heldur hafi fundurinn alltaf átt að fara fram síðar í vikunni og því hafi aldrei verið um neinn frest að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×