Innlent

Eldsneyti aftur selt á Þórshöfn

Benedikt Bóas skrifar
Grillskálinn var ekki aðeins bensínstöð heldur einnig samverustaður bæjarbúa.
Grillskálinn var ekki aðeins bensínstöð heldur einnig samverustaður bæjarbúa. Mynd/Kristinn Lárusson
N1 byrjaði í gær að selja eldsneyti á Þórshöfn en Grillskálinn í bænum brann til kaldra kola aðfaranótt þriðjudags. Bæjarbúar höfðu ekki haft neitt eldsneyti til að setja á bílana sína frá brunanum, sem hefur komið sumum í koll.

Eggert Þór Kristófersson Fréttablaðið/Valli
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir að félagið verði að bíða eftir að rannsókn lögreglu og svo trygginganna ljúki til að ákveða hvort Grillskálinn verði endurbyggður. „Við náðum að byrja degi fyrr að selja eldsneyti. Nú erum við að bíða eftir að lögreglan og tryggingarnar ljúki sér af. 

Það gæti orðið langt ferli áður en við vitum hvað við getum gert.“

Grillskálinn var ekki aðeins bensínstöð heldur samverustaður bæjarbúa til 50 ára. Þar komu bæjarbúar og fengu sér kaffi og oft hádegismat. Eggert segir að um leið og lögreglan og tryggingarnar ljúki sinni vinnu þá verði tekin ákvörðun um hvort skálinn verði byggður á ný. 

„Það verður pressa á okkur að byggja hann upp á nýtt, ég átta mig á því. En eldsneytissalan er allavega fyrsta skrefið þannig nú geta heimamenn skotist að kaupa jólagjafir á fullum bíl af eldsneyti.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×