Innlent

Steingrímur nýr forseti Alþingis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og forseti Alþingis. vísir/stefán
„Ég vil þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt mér,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, nýkjörinn forseti Alþingis við setningu þingsins í dag. 

Steingrímur er aldursforseti þingsins og bar því sjálfur fram einu tillöguna um forseta þingsins, sem sneri að honum sjálfum. Var kosið um nýjan forseta Alþingis og greiddu sextíu þingmenn atkvæði með Steingrími. Tveir voru fjarverandi og einn greiddi ekki atkvæði.

„Ég mun gera mitt besta til að vera þess trausts verður og vona að þó nokkur þingreynsla reynist mér.“

Steingrímur sagði að við núverandi aðstæður, þar sem enn er ómynduð ríkisstjórn, væri ábyrgð þingsins alls óvenju skýr og enn mikilvægara að samstarfsandi væri góður.

Venju samkvæmt voru sex varaforsetar kosnir, þau Þórunn Egilsdóttir, Birgir Ármannsson, Jón Þór Ólafsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Jóna Sólveig Elínardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Þórunn er fyrsti varaforseti og svo koll af kolli í þeirri röð sem hér er ritað.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×