Körfubolti

Hörður Axel á heimleið á ný

Hörður Axel í búningi Keflavíkur fyrir sex árum síðan.
Hörður Axel í búningi Keflavíkur fyrir sex árum síðan. vísir/daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson, leikstjórnandi íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, er á heimleið en hann greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Hörður Axel samdi við Keflavík í upphafi sumars en ákvað að semja við lið í Grikklandi. Hörður stoppaði stutt við þar og tók tvo leiki með Keflavík áður en hann samdi við Hubo Limburg United í Belgíu.

Segir hann í pistli á Facebook-síðu sinni að hann sé á heimleið á ný þar sem hann sé farinn að sjá hlutina í nýju ljósi.

Samkvæmt heimildum íþróttardeildar 365 mun Hörður semja við Keflavík á ný og verður hann með liðinu gegn Haukum á föstudaginn.

Pistilinn hans á Facebook má lesa hér fyrir neðan.

Að hafa spilað sem atvinnumaður er bæði forréttindi og uppskera af mikilli vinnu, vinna sem þú áttar þig á að er svo bara rétt að byrja þegar þú ferð út í harða heim atvinnumennskunnar.

Ég hef fengið að upplifa ýmsa hluti seinustu ár í atvinnumennsku bæði góða og slæma, eins og gengur og gerist.

Sama hvað hefur bjátað á hefur aldrei neitt í raun verið inn í myndinni en að halda áfram!

Þangað til núna.

Fyrst núna er ég að átta mig á að það eru ýmsir hlutir sem eru stærri en körfubolti.

Þegar við komum hingað út til Belgíu fundum við eftir nokkra daga að þetta væri ekki eitthvað sem okkur langaði að gera. Eins og staðan er í dag var þetta bara ekkert spennandi.

Þetta eru tímar sem maður mun aldrei fá aftur og þess vegna höfum við ákveðið að koma heim og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða fyrir okkur og verðandi erfingja í okkar umhverfi umkringd fjölskyldu og vinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×