Skoðun

Fiskeldi í sjókvíum II – ný stóriðja í fjörðum og flóum

Einar Jónsson og Erlendur Steinar Friðriksson skrifar
Í þessari grein verður leitast við að gera grein fyrir birtingarmyndum neikvæðra áhrifa sem gætu verið fylgifiskur þeirra risastóru áætlana, sem lýst var í fyrri grein, um eldi lax af erlendum uppruna í sjókvíum hér við land.

Ekki þarf mikla leit til að finna fjölmargar greinar fræðimanna og skýrslur stjórnvalda í Noregi, Skotlandi, Síle og Kanada af slíkum neikvæðum umhverfis­áhrifum. Norska ríkisendurskoðunin bendir á að markmið um sjálfbærni og umhverfisvernd í tengslum við fiskeldið hafi ekki náðst. Þar sé helst að nefna neikvæð áhrif eldis á villta stofna vegna erfðablöndunar, sjúkdóma og laxalúsar; lífræn og ólífræn mengun frá eldinu hafi neikvæð áhrif á vistkerfin. Norska Hafró og norska Náttúrufræðistofnunin uppfærðu nýlega sameiginlegt áhættumat á umhverfisáhrifum norsks sjókvíalaxeldis. Þar kemur fram að stór hluti þeirra villtu laxa- og sjóbirtingsstofna sem rannsakaður var, er í nokkurri eða mikilli hættu vegna erfðamengunar, laxalúsar eða sjúkdóma frá laxeldi.

Helstu neikvæðu þætti má þannig draga saman í eftirfarandi atriði: erfðablöndun, laxalús, sjúkdómar, lífrænn úrgangur frá eldinu og ólífrænn úrgangur. Allt sem hér er sagt styðst við birtar heimildir sem stutt blaðagrein rúmar ekki að nefna og aðeins tvö fyrstu atriðin verða nú tekin hér fyrir.

Erfðablöndun: Eldislaxinn sem er norskur sleppur úr kvíum, gengur upp í ár og blandast þar við náttúrulegan stofn og rýrir afkomumöguleika hans. Reynsla Norðmanna sýnir að um 0,1% af eldislaxi sleppur. Stór hluti hans syndir upp í ár til hrygningar og getur eldislaxinn synt allt að 2.000 km áður en hann leitar upp í ár í þessum tilgangi. Íslenski laxastofninn hefur verið hér í 11.000 ár og sérhæft sig að íslenskum aðstæðum og svipað má segja um villta stofninn (stofna) í Noregi. Villtir laxastofnar beggja landa eru þannig mjög ólíkir. Norski eldisstofninn sem hér hefur verið leyfður er kynbættur og sérhæfður til að vaxa hratt á stuttum tíma – ekki ósvipað kjúklingi í kjúklingarækt. Þegar blöndum á slíkum stofni við náttúrulegan á sér stað verða afkvæmin vanhæfari í lífsbaráttunni, afföll aukast og lífsferlar raskast. Blöndun til langs tíma gefur af sér nýjan stofn með rýrari afkomumöguleika. Hvað segir það okkur síðan að í Noregi má aðeins ala norskan lax í sjókvíum?

Laxalús (sníkjudýr af krabbadýraætt sem sest á fiskinn) er til staðar í náttúrlegu umhverfi laxfiska en í svo litlum mæli að hún veldur litlum sem engum afföllum. Í sjókvíaeldi er fiskur allan ársins hring og þéttleikinn jafnan mikill. Þar eru því kjöraðstæður fyrir lúsina enda magnast fjöldi hennar gríðarlega. Villtur fiskur sem fer nærri eldissvæði getur fengið á sig alltað hundraðfalt það magn lúsar sem ríkir við náttúrulegar aðstæður. Lúsin getur því valdið miklum afföllum á villtum fiski en einnig hamlað vexti hans og fæðunámi í sjó, breytt gönguhegðun og ruglað ýmis lífeðlisfræðileg kerfi fisksins.

Talið er að afföll vegna lúsar á náttúrlegum laxaseiðum og urriða sem fer um eldissvæði geti verið allt að 50%. Einnig er þekkt að lúsin leggst á bleikju í sjó og jafnvel í meira mæli en á urriða eða lax. Áhrifa lúsarinnar gætir mest innan 30 km frá kvíunum en undan straumum getur hún borist í allt að 100 km.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×