Innlent

Þorgerður Katrín um ákvörðun Guðna: „Ég treysti forsetanum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Vísir/Stefán
„Ég treysti forsetanum, það er mitt einfalda svar. Hann er augljóslega að vanda sig og ég treysti einfaldlega Guðna. Hann hefur yfirsýnina. Hann hefur samtölin, ég treysti og virði það sem hann hefur sagt og gert,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurð álits á ákvörðun Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, að veita Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, stjórnarmyndunarumboðið.

Hún sagði þessa ákvörðun ekki hafa komið sér á óvart en spurð hvort hún eigi von á því að Viðreisn verði boðið til viðræðna segist hún ekki hafa hugmynd um það. „Bjarni verður að fá þennan tíma. Hann sagðist ætla að funda með sínum þingflokki og svo ætlar hann að tala við alla formenn,“ segir Þorgerður Katrín.

Spurð hvernig henni myndi lítast á ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, segist hún ekki vilja gefa neitt álit um það.

„Megin málið eru málefnin, við förum ekki í stjórn nema málefnin ráði, það er formaður okkar búinn að segja margoft,“ segir Þorgerður Katrín. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×