Skoðun

Listmenntun

Sigrún Hrólfsdóttir skrifar
Í ávarpi sínu á Háskóladeginum þann 5. mars síðastliðinn hvatti menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, nemendur til þess að læra það sem þeir hefðu áhuga á. Ég get tekið undir þessi orð ráðherrans og tel að þetta sé lykilatriði. Því eins og hann sagði, þá er líklegt að maður nái árangri í því sem maður brennur fyrir. Og sem betur fer erum við ekki öll eins og margir vilja verða listamenn.

Það ríka menningarsamfélag sem þrífst hér í fámenninu á kletti í Norður-Atlantshafi er ekki síst tilkomið vegna þess að við höfum ákveðið að fjárfesta í menntun á fjölbreyttu sviði. Sem þjóð höfum við tekið þá ákvörðun að það sé heillavænlegt að styðja ungt fólk í því að mennta sig í því sem hugur þeirra stendur til. Burtséð frá því hvort námið sé ávísun á há laun síðar á ævinni eða ekki. Það er því mikilvægt að bjóða upp á sem flesta möguleika og að jafnrétti ríki milli námsgreina og háskóla. Svo er ekki í dag.

Aðsókn að Listaháskólanum er mikil og mun færri en vilja fá inngöngu í skólann á ári hverju. Það er erfiðara að komast inn í Listaháskólann en nokkurn annan háskóla á Íslandi. En auk þess að berjast um sæti við skólann, búa þeir nemendur sem vilja stunda listnám á Íslandi við það að þurfa að greiða há skólagjöld og hafa ekki aðra kosti. Skólagjöld við skólann eru nú 490.000 kr. ári í bakkalárnámi, samanborið við 75.000 kr. skrásetningargjald í Háskóla Íslands.

Listaháskólinn býr auk þess við það ójafnræði að fá langtum rýrari fjárveitingu til rannsókna en aðrir háskólar á Íslandi. Til samanburðar má nefna að hlutfall rannsókna af heildarframlagi ríkisins var 5,7% hjá Listaháskóla Íslands árið 2015, þegar hlutfallið var 37,8% hjá Háskóla Íslands og 42,8% hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.

Auk þess er skólinn starfræktur á fjórum stöðum í borginni, í bráðabirgðahúsnæði í mismunandi ásigkomulagi með tilheyrandi fjárhagslegu óhagræði og tímasóun fyrir nemendur og kennara.

Ójafnréttið verði leiðrétt

Þetta er sláandi í ljósi þess að ráðherra sjálfur og ríkisstjórnin, sem og alþjóðlegar stofnanir, hafa löngu áttað sig á því að efla þarf þátt hinna skapandi greina innan skólakerfisins til þess að mæta þeim breyttu aðstæðum sem ríkja í heiminum í dag og framtíðin ber í skauti sér.

Skapandi hugsun, gagnrýnin hugsun, mannleg samskipti, tilfinningagreind, það að geta tekið ákvarðanir, unnið úr vandamálum og brugðist hratt við nýjum aðstæðum, eru meðal þeirra þátta sem taldir eru vera hvað mikilvægastir í menntun komandi kynslóða. Alla þessa þætti þroska nemendur í listum með sér í ríkum mæli, samhliða því að dýpka skilning sinn á hinum mismunandi miðlum og aðferðum til tjáningar og sköpunar.

Í aðdraganda kosninga er því nauðsynlegt að huga að því hver sé stefna þeirra sem ætla sér að setjast í ríkisstjórn, í mennta- og menningarmálum. Þar eru málefni Listaháskóla Íslands stór þáttur. Því er það krafa okkar sem vinnum að þessum málum að komandi ríkisstjórn leiðrétti það ójafnrétti sem nemendur í listum búa við í landinu.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×