Erlent

Pólskar konur mótmæltu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Konur í Varsjá mótmæla áformum stjórnarinnar um allsherjarbann við fóstureyðingum.
Konur í Varsjá mótmæla áformum stjórnarinnar um allsherjarbann við fóstureyðingum. vísir/epa
Þúsundir kvenna tóku þátt í mótmælaverkfalli gegn áformum um fóstureyðingarbann í Póllandi. Fyrirmynd mótmælanna er fengin frá kvennafrídeginum á Íslandi árið 1975.

Konur í Póllandi mótmæltu með því að mæta ekki í vinnuna og sinna ekki heimilisverkum, rétt eins og konur gerðu hér á landi fyrir rúmlega fjörutíu árum.

Mótmæladagurinn í gær hefur verið nefndur Svartur mánudagur. Í tilefni dagsins klæddust konur svörtu og flykktust út á götur helstu borga Póllands þúsundum saman, með mótmælaspjöld og hrópuðu vígorð gegn áformum stjórnarinnar.

Víða í borgum Evrópu hélt fólk út á götur til stuðnings pólsku mótmælendunum, þar á meðal í Berlín, Brussel, Belfast og einnig hér í Reykjavík. Talið er að milljónir manna hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Pólska stjórnin hefur kynnt frumvarp um allsherjarbann við fóstureyðingum í öllu landinu. Neðri deild pólska þingsins samþykkti í september að senda frumvarpið til umfjöllunar í nefnd að lokinni fyrstu umræðu í deildinni.

Pólska fóstureyðingarlöggjöfin þykir þó harla ströng fyrir. Nú eru reglurnar þannig að fóstureyðingar eru einungis heimilar ef þær stofna heilsu móðurinnar í hættu, ef vitað er um fósturgalla eða ef þungun varð með nauðgun eða sifjaspellum.

Fyrirhuguð lög myndu hins vegar gera fóstureyðingar ólöglegur í öllum tilvikum. Einungis tvö önnur ríki í Evrópu eru með svo stranga fóstureyðingarlöggjöf, en það er Malta og Páfagarður.

Ákvæði frumvarpsins eru það ströng að læknar geta átt á hættu að verða sóttir til saka ef þeir framkvæma aðgerð til að bjarga lífi móðurinnar ef það kostar dauða fóstursins. Þá geta konur átt yfir höfði sér fangelsisvist ef þær missa fóstur.

Laga- og réttlætisflokkurinn, sem er fimmtán ára gamall flokkur hægrisinnaðra íhaldsmanna, hefur haldið um stjórnartaumana í Póllandi í tæpt ár, eða frá því hann sigraði með yfirburðum í þingkosningum í október á síðasta ári. Flokkurinn fékk þá 235 þingsæti af 460 og fer því með meirihluta á þingi án þess að þurfa stuðning frá öðrum flokkum.

Kaþólska kirkjan í Póllandi hefur eindregið stutt stjórnina í þessum áformum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×