Innlent

Einungis þriðjungur viðmælenda í fjölmiðlum eru konur: Ráðherra segir stöðuna ekki ásættanlega

Atli Ísleifsson skrifar
Aðeins sjö konur voru í tuttugu efstu sætum listans.
Aðeins sjö konur voru í tuttugu efstu sætum listans. Mynd/FKA

Karlmenn voru viðmælendur í 67 prósent tilfella og konur í þriðjungi tilfella samkvæmt nýrri greiningu á hlutfalli kynja í ljósvakamiðlum. Greiningin var unnin af Creditinfo Fjölmiðlavaktinni og voru niðurstöður birtar á málþingi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem fram fór í dag.

Þeir þrír sem oftast var rætt við á tímabilinu – 1. september 2015 til 31. ágúst 2016 – voru Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.

Katrín Jakobsdóttir var sú kona sem oftast var rætt við, en hún var í fimmta sæti listans. Aðeins sjö konur voru í tuttugu efstu sætunum. „Konur eru þriðjungur viðmælenda í ljósvakamiðlum á Íslandi í dag, aukning um 3% frá síðustu mælingu frá 2013, alls 9% betri árangur en á heimsvísu,“ segir í tilkynningu frá FKA.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði á málþinginu í dag að staðan eins og hún væri nú, væri ekki ásættanleg, en benti þó á að við værum að fara í rétta átt.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri sagði RÚV að vissu leyti vera spegil. „Held að fjölmiðlar eigi sannarlega að spegla en ekki bara einfaldir speglar sem spegla það sem við sjáum heldur líka vera hreyfiafl góða verka, það er aldrei afsökun að segja að vandamálið sé þarna úti, við þurfum að leggja okkar á vogarskálarnar til að stuðla að breytingum.“

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, sagði að á  útvarpsstöðvunum sýni skráningar að fyrstu sex mánuði þessa árs séu karlar 65 prósent viðmælenda, konur 35 prósent. Þetta hlutfall hafi verið 70/30. „Mjög áhugavert er að sjá greiningu á því hvernig hlutfallið er milli þátta, og það er mjög umhugsunarvert fyrir okkur. Markmiðið er að auka hlutföllin.“

Í tilkynningunni segir að heildarfjöldi greina sem hafi verið skoðaðar hafi verið 14.390. „Heildarfjöldi viðmælenda 3.969, þar af 63% karlmenn og 37% konur. Af öllum fréttum þar sem rætt var við stjórnmálamenn á landsvísu þá voru karlkyns viðmælendur í 60% tilvika en konur eru 49% þingmanna.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira