Fótbolti

Reyndi viljandi að kveikja neista hjá Dóru Maríu sem varð brjáluð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dóra María Lárusdóttir, leikmaður Vals í Pepsi-deild kvenna í fótbolta, snýr aftur í landsliðið þegar stelpurnar okkar mæta Slóveníu og Skotlandi í undankeppni EM 2017 seinna í mánuðinum. Hópurinn var valinn í dag.

Dóra María tók sér frí frá knattspyrnuiðkun frá september 2014 og þar til í mars á þessu ári en síðast spilaði hún landsleik í einmitt í september fyrir tveimur árum.

Sjá einnig:Freyr: Við ætlum að gefa Berglindi tækifæri

Þessi magnaða fótboltakona sem á að baki 108 landsleiki fyrir Ísland er búin að vera einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í sumar og stefnir jafnvel í að hún fari á þriðja Evrópumótið sitt að ári en hún er 31 árs gömul.

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, viðurkenndi á blaðamannafundi þegar hópurinn var tilkynntur í dag að hann lét á reyna hvort Dóra María hefði virkilegan áhuga á að snúa aftur í landsliðið. Hún virðist meira en klár miðað við það sem Freyr hafði að segja.

„Við erum búin að ræða málin vel. Ég talaði ekkert við hana þegar ég valdi síðasta hóp og það var viljandi. Ég vildi gá hvort ég myndi kveikja í einhverju í hausnum á henni sem það og gerði. Hún var brjáluð yfir því að ég talaði ekki við hana,“ sagði Freyr.

„Svo beið ég eins lengi og ég gat að ræða við hana núna áður en ég valdi þennan hóp. Við funduðum tvisvar áður en ég ákvað að velja hana því ég vildi vita hvort eldmóðurinn væri til staðar.“

„Hann er til staðar og þá vitum við hvað hún er góð í fótbolta. Við höfum séð hana vaxa í sumar og það er mikill fengur fyrir okkur að fá hana til baka. Þetta snerist fyrst og fremst um það hvort hún hefði innri hvatningu til að gera þetta vel. Hún hefur hana og það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur.“ sagði Freyr Alexandersson.

Svar Freys má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×