Innlent

FH-ingur fer dómstólaleiðina gegn Akureyrarbæ vegna slyssins á Þórsvellinum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Harjit slasaðist nokkuð illa og þurfti meðal annars að gera við þrjár brotnar tennur.
Harjit slasaðist nokkuð illa og þurfti meðal annars að gera við þrjár brotnar tennur. Vísir/Einar
Harjit Delay, Hafnfirðingur og ötull stuðningsmaður karlaliðs FH í knattspyrnu, hefur stefnt Fasteignum Akureyrarbæjar vegna slyss sem hann varð fyrir á viðureign FH gegn Þór í Pepsi-deild karla þann 14. september 2014. Harjit féll úr stúkunni þegar hann reyndi að gefa leikmanni FH fimmu (e. high five) og slasaðist alvarlega.

Í stefnu sem Magnús Davíð Norðdahl héraðsdómslögmaður hefur útbúið fyrir hönd Harjit kemur fram að krafist sé viðurkenningar á bótaskyldu Fasteigna Akureyrarbæjar vegna slyssins.

Áður var krafist viðurkenningar á bótaskyldu í nóvember 2014, tveimur mánuðum eftir slysið, en henni var hafnað af Sjóvá-Almennum tryggingum. Sú ákvörðun var svo staðfest af Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum þann 10. mars í fyrra. Fyrir vikið ákvað stefnandi að fara dómstólaleiðina.

Þórsvöllur í Þorpinu á Akureyri.vísir/auðunn
Deilt um hæð handriðsins

Harjit og lögmaður hans benda á að handriðið á Þórsvelli sé 82 cm sem sé 18 cm lægra en þeir 100 cm sem krafa sé gerð um í byggingareglugerð sem var í gildi þegar stúkan var byggð.

Handriðið standi vissulega ofan á steyptum kanti sem geri heildarhæðina 117 cm háa en hins vegar megi auðveldlega stíga upp á kantinn sem skapi hættu.

Í stefnunni segir að rík skylda hvíli á eigendum fasteigna að gæta að því sem þar eigi leið verði ekki fyrir tjóni.

„Verður að telja að auknar kröfur séu jafnframt gerðar til eigenda íþróttamannvirkja um allan aðbúnað þeirra, með hliðsjón af þeim mikla fjölda fólks á öllum aldri sem leggur leið sína á sama tíma til slíkra mannvirkja til þess að horfa á íþróttaviðburði, og þá ekki síst til áhorfendastúkna, sem gjarnan eru þéttskipaðar spenntum áhorfendum.“

Jón Ragnar Jónsson tekur innkast í leik með FH.Vísir/Pjetur
Ætlaði að gefa Jóni Jónssyni fimmu

Slysið varð rétt fyrir leik þegar leikmenn voru að ganga inn í búningsklefa eftir upphitun. Harjit teygði sig til Jóns Ragnars Jónssonar, fyrrverandi leikmanns FH og tónlistarmanns, þegar hann fór fram yfir handriðið og féll til jarðar.

„Ég hélt í smástund að hann væri bara dáinn. Þetta var bara eins og í bíómynd þar sem blóðið lak eftir jörðinni frá höfðinu,“ sagði Jón Ragnar í viðtali á sínum tíma. Ekki er vísað í orð Jóns í stefnunni en komið inn á að flestir sjónarvottar hafi óttast um líf Harjit á fyrstu augnablikum eftir slysið.

Óhætt er að segja að Þórsarar hafi ekki fundið til ábyrgðar vegna falls Harjit.

„Hann mætti kenna sér sjálfum um og þakka öðrum fyrir að ekki fór verr," sagði Aðalsteinn Ingi Pálsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs í viðtali á Vísi.

Tennurnar í Harjit fóru illa í slysinu.vísir/einar
Telja skorta klæðningu

Í stefnunni er fjallað um handriðið sem deilt er um hvort steypti kanturinn tilheyri eða ekki. Hafa verði í huga að auðvelt sé að standa uppi á steypta kantinum, þétt upp við 82 cm handriðið, rétt eins og staðið væri á gólfi upp að handriði í sömu hæð.

Þá er vikið að hinni „augljósu klifurhættu“ þar sem bæði sé auðvelt að klifra upp á hinn styepta kant auk þess sem mögulegt er að klifra upp á láréttan rimil sem er á sjálfu handriðinu í 15 cm hæð, mælt frá hinum steypta kanti. Sé staðið upp á honum séu einungis 67 cm upp að efstu mörkum handriðsins.

Vísað er til þess í byggingareglugerð, þar sem fjallað er um handrið, segi að handrið sem bjóði upp á klifur skuli klæða með klæðningu sem nái minnst 80 cm hæð. Engin klæðning hafi verið til staðar á handriðinu þegar stefnandi slasaðist. Starfsfólk á vellinum hafi sagt að bætt yrði úr því fyrir yfirstandandi knattspyrnutímabil.

Stuðningsmaður Fylkis stökk yfir vegg sem virkaði lágur þeim megin sem hann kom að honum. Hinum megin var fallhæðin hins vegar á fjórða metra.Vísir/Stefán
Fylkismaður fékk bætur vegna slyss

Einnig er komið inn á höfnunarbréf Sjóvá-Almennra frá í desember 2014 þar sem segir:

„Slys tjónþola verður samkvæmt framangreindu eingöngu rakið til eigin sakar hans þar sem hann teygir sig svo langt út og niður fyrir handriðið vallarmegin að hann fer allur yfir það.“

Lýsingin er sögð gífuryrt í stefnunni og þá sérstaklega sú ályktun að slysið sé eingöngu rakið til hegðunar Harjit.

„Staðreyndin er sú að tjónþoli vildi heilsa leikmanni, sem var staddur fyrir neðan stúkuna, og teygði sig að einhverju leyti í átt til hans en líta verður til þess að tjónþoli stóð uppi á hinum steypta kanti og var handriðið því einungis í 82 cm hæð,“ eins og segir í stefnunni.

Fráleitt sé að eigin sök Harjit verði metin 100 prósent og er vísað til dóms Hæstaréttar í máli frá 2012 til stuðnings. Þar þurfti aðili aðeins að bera 25 prósent tjónsins þrátt fyrir að hafa sjálfviljugur stokkið yfir steinvegg við Fylkisheimilið og fallið á fjórða metra niður á steinsteypta stétt.

Nánar um það mál hér.

Skýringarmyndir úr stefnunni.
„Ég var alls ekki fullur“

Mikið var fjallað um mál Harjit þegar það kom upp fyrir tæpum tveimur árum og sýndist sitt hverjum. Gerðu sumir ráð fyrir að hann hefði verið ölvaður en hann þvertók fyrir það.

„Ég er enginn dýrlingur en ég var langt frá því að vera fulli kallinn á vellinum sem fékk það sem hann átti skilið. Ég fékk mér tvo bjóra fyrir leikinn á meðan hinir strákarnir sem fóru með mér voru að drekka á leiðinni norður. Ég var sá sem fékk mér lúr á leiðinni. Ég var alls ekki fullur. Ég verð ekki fullur af tveim bjórum," segir Harjit og bætir við.

Hann braut þrjár tennur við fallið og taldi að kostnaðurinn yrði á endanum í kringum milljón krónur. Hann sagðist þó líta á jákvæðu hliðarnar því hann gæti verið í hjólastól.

Að neðan má sjá viðtal sem Henry Birgir Gunnarsson tók við Harjit eftir slysið.

Kærastan ökklabrotnaði

Segja má að það hafi verið ótrúleg tilviljun og óheppni að mánuði eftir slysið á Þórsvelli mætti Harjit á viðureign FH gegn Stjörnunni í lokaumferð Íslandsmótsins þar sem Stjarnan tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með eftirminnilegum hætti.

Harjit fór inn á völlinn eftir leik, sem reyndar er bannað, og ætlaði kærastan að fylgja honum eftir. Það tókst ekki betur en svo að hún braut á sér ökklann eins og greint var frá á sínum tíma.

Þá má nefna að Fréttablaðið gerði úttekt á öryggismálum í stúkum félaga í efstu deild karla í knattspyrnu eftir slysið. Þar kom í ljós að handriðið á Kaplakrikavelli væri það lægsta í efstu deild en handriði á Þórsvelli það hæsta. Taka skal fram að þá var miðað við heildarhæð, þ.e. hinn umdeildi steypti kantur var tekinn með í reikninginn.

Þá sendi Akureyrarbær frá sér yfirlýsingu eftir slysið þar sem fram kom að öll mannvirki séu hönnuð samkvæmt reglugerðum og standist viðmið sem sett séu. Á vellinum hafi farið fram leikir á vegum Evrópska knattspyrnusambandsins.

„Leikir á vegum sambandsins fara einvörðungu fram á völlum sem standast ítrustu öryggiskröfur. Hið hörmulega slys verður því á engan hátt rakið til þess að öryggi hafi verið ábótavant.“


Tengdar fréttir

Heppinn að vera á lífi | Íhugar að kæra

Stuðningsmaður FH, Harjit Delay, segist vera heppinn að vera ekki í hjólastól eða hafa hreinlega hálsbrotnað er hann féll úr stúkunni á Þórsvelli fyrir leik Þórs og FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×