Sport

Eygló varð áttunda í úrslitunum | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló eftir sundið í Ríó í nótt.
Eygló eftir sundið í Ríó í nótt. Vísir/Anton

Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr SH og núverandi Íþróttamaður ársins, hafnaði í áttunda sæti í úrslitum 200 m baksunds á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Anton Brink, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á sundi Eyglóar Óskar í kvöld og náði þessum flottum myndum hér fyrir ofan.

Eygló Ósk synti á 2:09.44 mínútum í úrslitasundinu sem var ekki eins hratt og í undanúrslitunum þegar hún setti Íslands- og Norðurlandamet.

Afar óvænt úrslit voru í sundinu þar sem hin bandaríska Madeline Dirado bar sigur úr býtum á 2:05,99 eftir að hafa tekið fram úr „járnfrúnni“ Katinka Hosszú frá Ungverjalandi sem leiddi framan af. Hosszú synti á 2:06,05 mínútum en Hilary Caldwell vann brons á 2:07,54 mínútum.

Þetta voru önnur gullverðlaun Dirado á leikunum og fjórðu í heildina. Hosszú hafði unnið þrenn gullverðlaun í Ríó og reiknuðu flestir með sigri hennar í nótt.

Eygló Ósk byrjaði frábærlega og var í þriðja sæti eftir fyrsti 50 metrana. Hún gaf hinsvegar mikið eftir á síðustu 50 metrunum.

Íslenska sundfólkið hefur þar með lokið keppni á leikunum en Íslands náði fjórum sætum í undanúrslitum og tveimur sætum í úrslitasundum í Ríó sem er frábær og sögulegur árangur.

Eygló Ósk varð í nótt önnur íslenska konan og þriðji íslenski sundmaðurinn sem nær því að synda í úrslitum á Ólympíuleikum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir synti til úrslita í 100 metra bringusundi á þessum leikum og endaði í sjötta sæti og þá komst Örn Arnarson í úrslit í 200 metra baksundi á ÓL í Sydney 2000 þar sem hann endaði í fjórða sæti.

Eygló Ósk varð í fjórtánda sæti í fyrri grein sinni á leikunum sem var 100 metra baksund. Eygló Ósk og Hrafnhildur Lúthersdóttir voru meðal fjórtán efstu í öllum sínum greinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira