Innlent

Óháðir fasteignasalar mátu virði eignanna á Gufunesi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á föstudaginn að selja RVK-Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasar Kormáks, fasteignir á Gufunesi. Fyrirtækið hyggst reisa kvikmyndaver á Gufunesi og greiðir rúma 301 milljón fyrir fasteignirnar.

Byggingarnar eru fjórar og tilheyrðu áður áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Því hefur verið fleygt að RVK-Studios fái fasteignirnar á gjafaverði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur segir að svo sé ekki.

Dagur B Eggertsson, borgarstjóri.

„Þegar við seljum svona fáum við tvo óháða fasteignasala að leggja mat á verðgildið og þeirra verkefni er að meta markaðsverð og það var farið eftir þeirra mati við gerð á kaupsamningum,“ segir Dagur.
Hann segir það vera skilyrði í samningum að á svæðinu verði byggð upp starfsemi undir kvikmyndaiðnað. Vilji sé fyrir hendi að með tíð og tíma rísi í Gufunesi þorp undir skapandi greinar.
„Þau vilyrði um kaup á öðrum hugsanlegum lóðum þarna í kring sem fylgja samningum eru háð því að þarna sé blómleg kvikmyndagerð.“
Hann telur að mikill ágóði gæti hlotist af því að byggja upp starfsemi af þessum toga í borginni.
„Þetta er eitt af lykilatriðunum í atvinnustefnu og samkeppnisstefnu borgarinnar að skapandi greinar hafi vaxtarmöguleika. Þarna skapast áhugaverð störf fyrir ungt fólk og smitar yfir á allskonar aðra hluti ef að hingað tekst að laða innlend og erlend kvikmyndatengd verkefni þá eru gríðarlegir hagsmunir undir, ekki bara fyrir Reykjavík heldur líka Ísland,“ segir Dagur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.