Körfubolti

Fyrirliði Íslandsmeistaranna framlengir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir með nýja samninginn.
Gunnhildur Gunnarsdóttir með nýja samninginn. Mynd/Heimasíða Snæfells
Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Íslands- og bikarmeistara Snæfells í Domino´s deild kvenna í körfubolta hefur gert nýjan samning við Snæfell. Heimasíða Snæfells segir frá þessu.

Gunnhildur hefur unnið þrjá stóra titla með Snæfelli síðan að snéri aftur á heimaslóðirnar sumarið 2014. Hún er lykilmaður bæði hjá Snæfelli og íslenska landsliðinu.

Gunnhildur var kosin besti varnarmaður Domino´s deildar kvenna annað árið í röð og þá var hún einnig valin í lið ársins annað árið í röð.

Gunnhildur var með 11,6 stig, 4,3 fráköst, 3,2 stoðsendingar og 2,3 stolna bolta að meðaltali í 30 leikjum sínum á Íslandsmótinu. Hún skoraði 23 stig og fimm þriggja stiga körfur í bikarúrslitaleiknum í Laugardalshöll þar sem Hólmarar unnu kvennabikarinn í fyrsta sinn.

Gunnhildur tók við leiðtogahlutverkinu í Snæfellsliðinu þegar Hildur Sigurðardóttir lagði skóna á hilluna og það er ekki mikið hægt að kvarta yfir frammistöðu hennar á fyrsta ári sínu sem fyrirliði.

Gunnhildur Gunnarsdóttir átti mjög gott tímabil þrátt fyrir að hafa glímt við bakmeiðsli í byrjun leiktíðar, axlarmeiðsli um mitt mót og hnémeiðsli í lokin.

Hún harkaði að sér eins og fáir aðrir og leiddi lið sitt til beggja stóru titlana en þetta er í fyrsta sinn sem Snæfellskonur vinna tvöfalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×