Fótbolti

Arnór Ingvi dýrasti leikmaðurinn í sögu Rapid Vín

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnór Ingvi er á leið til Austurríkis.
Arnór Ingvi er á leið til Austurríkis. vísir/getty
Arnór Ingvi Traustason, landslisðmaður í fótbolta, hefur verið seldur frá Svíþjóðarmeisturum IFK Norrköping til austurríska liðsins Rapid Vín.

Þetta kemur fram á heimasíðu sænska félagsins en Arnór Ingvi spilar með Norrköping fram að EM-fríinu og flytur sig svo um set til Austurríkis.

Rapid Vín er sagt borga ríflega tvær milljónir evra fyrir íslenska landsliðsmanninn en hann verður dýrasti leikmaðurinn í sögu austurríska félagsins.

Rapid Vín er sigursælasta félagið í Austurríki en það á að baki 32 landstitla. Liðið er sem stendur í öðru sæti fyrir lokaumferðina þar í landi og kemst hvorki ofar né neðar.

Arnór Ingvi hefur spilað frábærlega fyrir Norrköping síðan hann gekk í raðir liðsins árið 2014. Hann hefur verið einn af bestu leikmönnum sænsku úrvalsdeildarinnar undanfarin misseri og varð Svíþjóðarmeistari með liðinu síðasta haust.

Njarðvíkingurinn nýtti tækifæri sín með landsliðinu frábærlega eftir að undankeppni Evrópumótsins lauk og var á mánudaginn valinn í lokahópinn sem fer til Frakklands í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×