Körfubolti

Jón Halldór: Dómari sló mig í bakið og kallaði mig fávita

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Halldór Eðvaldsson, einn af sérfræðingum körfuboltakvölds, fékk að vita það hreint út hvað einum dómara deildarinnar hefur fundist um gagnrýni hans í sinn garð á þessu tímabili.

Jón Halldór var í viðtali í Akraborginni í dag þar sem hann sagði frá atviki sem kom upp í fyrsta úrslitaleik KR og Hauka í gærkvöldi.

„Það var góður og yndislegur drengur sem kom og sló í mig í gær. Hann var ekkert rosalega sáttur við mig. Hann virtist allavega ekki vera að grínast,“ sagði Jón Halldór en nafngreindi ekki dómarann.

„Það er eins og gengur í lífinu. Ef menn eru pirraðir yfir einhverju sem maður segir eða er að gagnrýna má maður alveg búast við þessu. Ef svo er í þessu tilviki þá er það allt í lagi. Mér líður ekkert illa með það.“

„Ég tók þessu ekki sem gríni. Hann labbaði framhjá mér og barði í bakið á mér. Ég man ekki nákvæmlega það sem hann sagði en orðið fáviti kom þarna fram,“ sagði Jón Halldór.

Þráspurður um hvern væri að ræða sagði Jón: „Þetta er dómari sem er búinn að vera að dæma í efstu deild og ég er búinn að gagnrýna í tvígang. Kannski fannst honum það ósanngjarnt sem ég hef sagt,“ sagði Jón Halldór en þetta fær ekkert á hann.

„Nei, blessaður vertu. Þetta er hluti af þessu. Auðvitað finnst fólki gagnrýni sár. Það er allt í lagi. Þá fer fólk bara í fýlu.“

„Ef ég er fenginn í einhverja vinnu og á að segja það sem mér finnst þá geri ég það. Mér þykir mjög vænt um þennan mann. Ég hef dæmt með honum og þekkt hann í mörg ár. Ég veit að hann hefur verið eitthvað pirraður út í mig og lét mig því heyra það. Ég þoli það alveg. Ég elska hann samt,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson.

Allt viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan en umræðan um dómarann hefst eftir tæpar níu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×