Innlent

Ólafur Ragnar gæti þurft að opna bókhaldið til að forðast Panama-storminn

Birgir Olgeirsson skrifar
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson. Vísir/EPA
Spjótin standa á Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, eftir að það var uppljóstrað í dag að fjölskylda eiginkonu hans, Dorrit Moussaieff, átti aflandsfélagið Lasca Finance Limited sem er að finna í Panama-skjölunum.

Kjarninn og Reykjavík Grapevine sögðu fyrst frá málinu. Síðar í dag boðaði Reykjavík Media frekari umfjöllun um tengsl forsetahjónanna við Panama-skjölin.

Andrés Jónsson.Vísir
Almannatengillinn Andrés Jónsson, sem er sérfræðingur í krísustjórnun, segir augljóst að það sé afar óþægilegt fyrir einhvern sem sækist eftir frekari trúnaðarstörfum fyrir almenning að vera tengdur Panama-skjölunum.

„Það sýnir sig hér á Íslandi og víða annars staðar,“ segir Andrés um þá þá stjórnmálamenn sem hafa sagt af sér eftir að nöfn þeirra komu upp í lekanum á Panama-gögnunum.

Ólafur Ragnar tilkynnti í síðustu viku að hann ætlar að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í sumar. Andrés segir Ólaf Ragnar mögulega þurfa að stíga það skref að opna bókhaldið líkt og nokkrir stjórnmálamenn hafa nú þegar gert.

„Það sem hann ætti mögulega að skoða væri að upplýsa um öll fjármál þeirra hjóna, leggja allt á borðið. Það var það sem David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, þurfti að gera til að lifa af þá miklu gagnrýni sem hann varð fyrir nú á dögunum. Hann neyddist til að leggja spilin á borðin þannig að almenningur gæti lagt mat á málið,“ segir Andrés. 

Ólafur Ragnar hefur ítrekað neitað því að hann eða Dorrit eigi félög á aflandseyjum. Í nýlegu viðtali við bandarísku fréttastofuna CNN þvertók hann fyrir að hann eða fjölskylda hans tengdist slíkum félögum á nokkurn hátt. Andrés segir sérkennilegt að hafa heyrt forsetann taka svo afdráttarlaust til orða. Það gæti einfaldlega bent til þess að Ólafur hafi ekkert vitað um tilveru þessara aflandsfélags fjölskyldu Dorritar en engu að síður segir hann stjórnmálamenn yfirleitt reyna að passa sig á því að lenda ekki í því að hafa neitað einhverju sem síðar kom á daginn. Þess vegna hafi verið sérkennilegt að sjá Ólaf Ragnar taka svo afdráttarlaust til orða, í ljósi þess að hann er kvæntur inn í fjölskyldu Dorritar sem er afar auðug.

Ólafur Ragnar hefur sjálfur svarað þessu máli á þann veg að hvorki hann né Dorrit hafi vitað af þessu félagi né heyrt af því áður. „Faðir Dorritar er látinn og móðir hennar, sem er 86 ára, man ekki eftir neinu slíku félagi." 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×