Innlent

Segir Íslendinga verða að „viðundri á heimsvísu“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Þetta gæti verið byrjunin. En byrjun verðum við að fá. Svona gengur þetta ekki lengur,“ segir Ögmundur.
"Þetta gæti verið byrjunin. En byrjun verðum við að fá. Svona gengur þetta ekki lengur,“ segir Ögmundur. Vísir/GVA
Ögmundur Jónasson, þingmaður vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, segir tvennt þurfa að gerast í íslensku samfélagi í kjölfar umfjöllunar kvöldsins. Hann vill banna viðskiptabönkum að fást við fjárfestingar. Þetta kemur fram í bloggfærslu Ögmundar í kvöld.

„Frægt varð þegar Geir H. Haarde bað almættið að blessa Ísland í þann veginn sem Hrunið var að bresta á. Margt fór vissulega á betri veg en á horfðist þessa haustdaga árið 2008. Íslendingar lögðust á árarnar og saman komumst við á lygnari sjó. Eða það héldum við, ekki vitandi að forsætisráðherrann þáverandi var ekki bænheyrður - alla vega ekki til langs tíma,“ segir Ögmundur.

Nú sé komið í ljós, eftir allar rannsóknarskýrslurnar og allar heitstrengingarnar, að 800 aflandsfélög tengist Íslendingum sem fyrir bragðið verði að „viðundri á heimsvísu.“

„Í ljós kemur að forsætisráðherra og fjármálaráðherra tengjast félögum í paradísum peninganna og vafasömum fjármálagerningum sem þaðan er stýrt. Minni fréttir voru að Landsbankinn skuli hafa haft leiðandi hlutverk í gjörningum þessa siðlausa fjármálaheims. Það höfðum við vitað lengi enda yfirlýst stefna hans frá því fyrir hrun að þjóna stóreignafólki til að koma eignum sínum í felur.“

Segir Ögmundur tvennt þurfa að gerast:

1) Skipta þarf um ríkisstjórn í landinu þegar í stað.

2) Stokka þarf upp bankakerfið, stofna samfélagsbanka og banna viðskiptabönkum að fást við fjárfestingastarfsemi.

„Þetta gæti verið byrjunin. En byrjun verðum við að fá. Svona gengur þetta ekki lengur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×