Sport

María Helga vann gull og brons í Svíþjóð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
María Helga með verðlaunin sín í Malmö.
María Helga með verðlaunin sín í Malmö. mynd/kaí

María Helga Guðmundsdóttir, karatekona, gerði vel á opna sænska meistaramótinu sem fram fór í Malmö í Svíþjóð um helgina.

María Helga gerði sér lítið fyrir og vann kumite-keppnina í -55 kg flokki. Manu Gurung frá Nepal sem átti að vera mótherji hennar í undanúrslitum mætti ekki og komst María því beint í úrslitin.

Þar mætti hún finnsku landsliðskonunni Ann-Marie Nummila. María Helga stýrði bardaganum frá upphafi og náði fljótt forystu með góðu sparki í höfuð Ann-Marie, sem síðan náði að svara með höggi í höfuð Maríu.

En María Helga sýndi styrk sinn og náðu góðu hringsparki í síðu þeirra finnsku og vann viðureignina örugglega, 5-1.

Í kata vann María Helga til bronsverðlauna. Eftir að vinna fyrstu tvær viðureignir sínar mætti María Helga Melina Kazakidis frá Danmörku í undanúrslitum.

Sú danska hafði betur og því ljóst að María Helga myndi keppa um bronsverðlaunin. Í viðureigninni um bronsið mætti María Helga A. Johannsson frá Svíþjóð. María Helga sýndi kata Gojushiho-sho og vann viðureignina nokkuð örugglega.Fleiri fréttir

Sjá meira