Körfubolti

Hill sleppur við bann | Verður með á morgun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hill átti frábæran leik gegn Tindastóli á miðvikudaginn.
Hill átti frábæran leik gegn Tindastóli á miðvikudaginn. vísir
Jerome Hill, leikmaður Keflavíkur, sleppur við leikbann og getur því leikið með sínum mönnum sem mæta Tindastóli í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla í körfubolta á morgun.

Körfuknattleiksdeild Tindastóls kærði Hill til aganefndar KKÍ fyrir að slá til Helga Freys Margeirssonar í þriðja leik liðanna á miðvikudaginn.

Atvikið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ leit ekki á „erindi Tindastóls sem formlega kæru enda hafa félög skv. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál ekki kærurétt í agamálum, heldur ábendingarétt,“ eins og segir í niðurstöðu nefndarinnar. Mat hennar er því að ekki sé ástæða til að gefa út kæru.

Hill verður því í búning á morgun þegar Keflvíkingar freista þess að vinna og tryggja sér þar með oddaleik í einvíginu.

Hill lék sem kunnugt er með Tindastóli framan af vetri áður en hann var látinn fara frá liðinu. Hann gekk skömmu síðar til liðs við Keflavík.

Niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar KKÍ er svohljóðandi:

Aga- og úrskurðarnefnd barst kæra frá Kkd. Tindastóls vegna atviks úr leik Keflavíkur og Tindastóls í úrslitakeppni Domino´s deildar karla þann 23. mars s.l. 

Aga- og úrskurðarnefnd getur ekki litið á erindi Tindastóls sem formlega kæru enda hafa félög skv. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál ekki kærurétt í agamálum, heldur ábendingarétt. Eftir að hafa litið á þau gögn sem bárust er það mat nefndarinnar að ekki sé ástæða til að gefa út kæru.

Ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar er ekki úrskurður, heldur ákvörðun um að taka málið ekki fyrir formlega eftir að að hafa skoðað málsatvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×