Körfubolti

50 sigrar í röð á heimavelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty

Golden State vann í nótt New York örugglega, 121-85, og þar með sinn 50. leik í röð á heimavelli í deildarkeppninni.

Steph Curry átti enn einn stórleikinn en hann skoraði 34 stig, þar af átta þriggja stiga körfur í þrettán tilraunum. Hann hvíldi svo í fjórða leikhluta enda forysta Golden State mikil.

Klay Thompson kom næstur með nítján stig en stigahæstur hjá New York var Carmelo Anthony með átján stig.

Golden State hefur unnið alla 32 heimaleiki sína í Oracle Arena í vetur og virðist hreinlega óstöðvandi.

Cleveland vann Dallas, 99-98, þrátt fyrir að LeBron James hafi verið hvíldur í nótt. Kyrie Irving var stigahæstur hjá Cleveland með 33 stig.

Cleveland var reyndar með örygga forystu framan af en Dallas náði að koma til baka í fjórða leikhluta eftir að hafa lent átján stigum undir.

Dallas náði þó aldrei forystu og Irving tryggði Cleveland sigurinn með því að stela boltanum þegar lítið var eftir og klára leikinn af vítalínunni.

Oklahoma City vann Boston, 130-109, með 28 stigum frá Kevin Durant en hann var einnig með níu stoðsendingar og sjö fráköst. Russell Westbrook kom næstur með 24 stig.

Boston hafði unnið fjórtán heimaleiki í röð þar til að liðið tapaði í nótt.

Úrslit næturinnar:
Boston - Oklahoma City 109-130
Charlotte - Orlando 107-99
Cleveland - Dallas 99-98
Washington - Chicago 117-96
Detroit - Atlanta 114-118
Memphis - Minnesota 108-114
Houston - LA Clippers 106-122
Sacramento - New Orleans 108-123
Golden State- New York 121-85

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira