Körfubolti

Stefan Bonneau spilar með b-liði Njarðvíkur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefan Bonneau.
Stefan Bonneau. Vísir/Stefán

Stefan Bonneau snýr aftur á körfuboltavöllinn í kvöld þegar hann mun spila með b-liði Njarðvíkur í 2. deildinni.

Það bíða margir Njarðvíkingar eftir því að sjá þennan frábæra leikmann aftur í Njarðvíkurbúningnum og hann mun taka fyrsta skrefið inn á völlinn á eftir.

Njarðvík mætir Íþróttafélagi Breiðholts klukkan 20.30 í kvöld í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Njarðvíkingar staðfestu það á fésbókarsíðu sinni í kvöld að Stefan Bonneau muni spila leikinn en hann mun þó ekki spila nema nokkrar mínútur enda ætla Njarðvíkingar að fara varlega af stað.

Það verða fleiri stjörnuleikmenn á ferðinni í kvöld. Bræðurnir Teitur og Gunnar Örlygsson ætla hugsanlega að spila líka en það er enn verið að leita að búningi sem passar á þjálfarann.  Páll Kristinsson og Sverrir Þór Sverrisson gætu líka spilað og því verður Njarðvíkurliðið fullt af kunnum köppum.

Stefan Bonneau hefur ekki spilað með Njarðvíkurliðinu á þessu tímabili eftir að hafa slitið hásin í haust. Hann talaði alltaf um það sjálfur að hann ætlaði að ná úrslitakeppninni og hann hefur verið í kringum Njarðvíkuliðið í allan vetur.

Njarðvíkingar eiga eftir þrjá leiki í Domino´s deildinni fyrir úrslitakeppnina og sá fyrsti er á heimavelli á móti Þór í Þorlákshöfn í beinni á Stöð 2 Sport á föstudagskvöldið. Stefan Bonneau mun ekki spila leikinn á föstudagskvöldið samkvæmt heimildum Vísis en gæti komið inn í meistaraflokksliðið um miðjan mars.

Stefan Bonneau hyggst spila sinn fyrsta leik à árinu med B lidi UMFN i kvöld. Leikurinn hefst kl 20.30 og er um ad raeda...

Posted by Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur on 1. mars 2016


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira