Enski boltinn

United kaupir 60 milljóna evra táning frá Benfica í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Renato Sanches að fara úr rauðu í rautt?
Renato Sanches að fara úr rauðu í rautt? vísir/getty
Manchester United og portúgalska liðið Benfica hafa gert heiðursmannasamkomulag sín á milli um sölu á Renato Sanches frá Benfica til United í sumar. Þetta kemur fram í portúgölskum miðlum í dag.

United er sagt hafa reynt að kaupa þennan 18 ára gamla miðjumann í janúar en Benfica vildi halda honum innan sinna raða út tímabilið. Það hefur aftur á móti samþykkt að selja hann til United í sumar.

Enski risinn er sagður borga 40 milljónir evra fyrir Sanches í sumar eða 5,7 milljarða króna. Með árangurstengdum greiðslum verður heildarupphæðin á endanum 60 milljónir evra eða 8,5 milljarðar króna.

Sanches er talinn einn af efnilegustu leikmönnum Evrópu um þessar mundir. Hann er fastamaður í byrjunarliði Benfica og búinn að skora tvö mörk og gefa eina stoðsendingu fyrir liðið í portúgölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Framtíð Louis van Gaal á Old Trafford er í uppnámi, en samkvæmt portúgalska blaðinu Record, sem fullyrðir að heiðursmannasamkomulag ríki á milli félaganna, ætlar United að ganga frá kaupum á Sanches um leið og glugginn opnar í sumar.

Sé kaupverðið rétt verður Renato Sanches dýrasti leikmaðurinn sem Benfica hefur selt. Mest fékk félagið 40 milljónir evra fyrir belgíska landsliðsmanninn Axel Witsel þegar hann var keyptur til Zenit í Pétursborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×