Handbolti

Hlynur: Svo stoltur af þessu liði að það hálfa væri nóg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hlynur Morthens með bikarinn í dag.
Hlynur Morthens með bikarinn í dag. vísir/andri marinó

Hlynur Morthens, markvörður Vals, átti flottan leik þegar Hlíðarendapiltar lögðu Gróttu, 25-23, í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í handbolta í dag.

"Þegar það er bikar í húfi þá verður maður að gefa sig allan í þetta," sagði Hlynur hress og kátur við Vísi eftir leikinn í dag.

"Það er enginn morgundagur í þessu. Ef maður klikkar í svona leik er maður bara grenjandi í viku og ég nenni því ekki."

Hlynur varði tólf skot í leiknum og var með 34 prósent hlutfallsmarkvörslu. Hann var frábær framan af í seinni hálfleik þar sem Valur náði fimm marka forskoti sem lagði grunninn að sigrinum.

"Við byrjuðum seinni hálfleikinn mjög vel. Bæði lið voru samt þreytt. En við náðum fimm marka forskoti. Þeir samt hættu aldrei enda er þetta drullu gott lið," sagði Hlynur um Gróttuna.

"Ég veit ekki hvernig við fórum að því að klára þetta. Markvarslan hjá mér var ekki góð síðasta korterið, en þetta dugði og ég er ánægður með það."

Varnarleikur Valsliðsins var frábær alla helgina, en liðið komst í úrslitin með því að leggja topplið Hauka í undanúrslitum þökk sé sterkum varnarleik.

"Varnarleikurinn var frábær í báðum leikjum. Orkan sem fór í leikinn í gær var lygileg en menn náðu að rífa sig upp í dag. Það var bara ótrúlegt að sjá þetta. Ég er svo stoltur af þessu liði að það hálfa væri nóg," sagði Hlynur.

Markvörðurinn þrautreyndi var með Hámark og epli í viðtölum eftir leikinn í gær en verður fagnað með einhverju öðru í kvöld?

"Það verður kók og banani," sagði Hlynur Morthens léttur að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira