Erlent

Bandaríkin: Táningur á svifbretti hrasaði og skaut frænda sinn til bana

Atli Ísleifsson skrifar
Lavardo Fisher bjó í Ocoee, úthverfi Orlando.
Lavardo Fisher bjó í Ocoee, úthverfi Orlando. Mynd/Twitter

Þrettán ára bandarískur drengur lést um helgina eftir að átján ára frændi hans hrasaði á svifbretti (e. hoverboard) og hleypti af skoti úr skammbyssu sem hæfði drenginn í höfuðið.

Í frétt Orlando Sentinel kemur fram að banamaðurinn hafi sagt lögreglu að um slys hafi verið að ræða.

Hinn þrettán ára Lavardo Fisher lést af völdum áverka á sjúkrahúsi í Flórída eftir að hafa orðið fyrir skotinu í Ocoee, úthverfi Orlando, á sunnudaginn.

Sentinel greinir frá því að tveir frændur Lavardo, banamaðurinn þeirra á meðal, hafi orðið vitni af slysinu. Blóðblettir hafi verið á fötum þeirra og hafi þeir upphaflega reynt að kenna öðrum um drápið.

Þannig hafi þeir sagt lögreglu að vinur þeirra, „Skeet“, hafi litið í heimsókn og sýnt þeim byssu sína þegar skotinu var hleypt af. Sögðust þeir hafa kynnst Skeet á nálægum körfuboltavelli deginum áður. Lögregla fann þó engan með þessu nafni, og viðurkenndu drengirnir síðar að drengurinn væri í raun uppspuni.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að það sem raunverulega gerðist var að Lavardo hafi verið að spila tölvuleik, en fyrir aftan hann hafi frændi hans staðið á svifbretti, misst jafnvægið og skotið úr byssunni sem hann hélt á.

Í frétt Washington Post segir banamanninum hafi enn ekki verið birt ákæra um manndráp í gær.Lögregla hefur þó ákært eiganda byssunnar, ættingja drengjanna, en hann er dæmdur glæpamaður og hefur ekki heimild til að eiga skotvopn. Hann var ekki heima þegar drengurinn var skotinn.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira