Innlent

Breytt fyrirkomulag hjá Sorpu

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá skrifstofum Sorpu.
Frá skrifstofum Sorpu. Vísir/Pjetur

Ekki er lengur leyfilegt að henda svörtum ruslapokum í pressugáma á endurvinnslustöðvum Sorpu og aðeins verður tekið við úrgangi í glærum pokum. Breytingin er liður í þeirri áætlun Sorpu að leggja áherslu á að pappír, pappi, tau og klæði fari í endurvinnslufarveg í stað urðunar.

Í tilkynningu frá Sorpu segir að urðun á vefnaðarvörum og pappírsefnum feli ekki aðeins í sér sóun á hráefnum, heldur kosti förgun þeirra samfélagið meira en ef þau færu í endurvinnslu.

Þær breytingar ganga einnig í garð í þessum mánuði að söfnun glers hefst á 37 grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar geta skilað hvers kyns gleri sem fellur til á heimilum, til dæmis sultukrukkum eða glerflöskum án skilagjalds, í glergáma.

Sorpa segir að glergámar verði settir á allar grenndarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og stefnt að því að ljúka þeirri innleiðingu árið 2019. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sorpu.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira