Innlent

Háskóli Íslands hefur glatað trausti þingmanna - Mikil reiði í þingmannahópnum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Vísir

„Eftir þessa málsmeðferð hefur Háskóli Íslands glatað trausti mínu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að velta upp hlutverki Háskóla Íslands og hvort hann sé fær um að halda úti sinni starfsemi á Landsbyggðinni,“ segir Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Þetta segir hann vegna ákvörðunar háskólaráðs Háskóla Íslands í dag að færa íþróttakennaranámið frá Laugarvatni til Reykjavíkur.

„Þá er hún ekki einskorðuð við íþróttanám að Laugarvatni heldur gefur tóninn um það sem á eftir mun fylgja, því ef einangruð hagræðingarsjónarmið einstakra stofnana, án tillits til heildarhagsmuna, verða alls ráðandi er ljóst að skammt mun verða í að menntastofnanir á landsbyggðinni leggist meira og minna af, sem og önnur starfsemi ríkisins utan höfuðborgarsvæðisins. Það er því augljóst að þessi ákvörðun getur ekki eingöngu verið innri ákvörðun skólans. Núna hef ég áhyggjur af því að öll störf á vegum HÍ verði flutt til Reykjavíkur.“

Sjá einnig: Nám í íþrótta- og heilsufræði verður flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur

Aðrir þingmenn kjördæmisins hafa líka skoðun á málinu.

„Niðurstaða háskólaráðs er gríðarleg vonbrigði. Ég vonaði og trúði því, að með samtakamætti heimamanna, þingmanna kjördæmisins og allra velunnara skólans, þá næðum við að draga þessi hugmynd til baka,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Færsla skólans frá Laugarvatni er mikil blóðtaka fyrir samfélagið. Ég harma þessa niðurstöðu.“

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar segist einnig vera ósátt við niðurstöðuna.

„Niðurstaðan er óásættanleg vegna þess að ekki var búið að reyna til þrautar að efla skólastarfið að Laugarvatni og laða að fleiri nemendur. Þetta er mál sem háskólinn, sveitarfélagið og ráðuneyti menntamála og byggðamála hefðu átt að gefa sér tíma í að skoða betur. Málið varðar bæði menntapólitík og byggðapólitík en ekki aðeins rekstur Háskóla Íslands,“ segir Oddný.

Frá Laugarvatni. Vísir/Magnús Hlynur

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir niðurstöðuna vera gríðarleg vonbrigði.

„Það er ömurlegt til þess að vita að ekki sé vilji hjá Háskóla Íslands, sem kallar sig háskóla allra landsmanna, að efla námið að Laugarvatni. Við þingmenn kjördæmisins lýstum yfir vilja okkar til að koma bæði að vinnslu, útfærslu og eftirfylgni þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til að efla námið að Laugarvatni.

Sá vilji okkar var að engu hafður hjá yfirstjórn HÍ. Nú er ljóst að HÍ hefur engan áhuga né metnað til að halda úti námi á landsbyggðinni,“ segir Unnur Brá.

Sjá einnig: Flaggað í hálfa stöng að Laugarvatni

Setja fjölda heimila í uppnám
„Þetta eru afar slæmar fréttir og mikil vonbrigði að ekki skuli vera tekið tillit til þeirra óska að fresta þessari ákvörðun um eitt ár. Mér líður eins og að þetta sé búið að vera í undirbúningi lengi og sannfærðist enn frekar um það eftir að hafa hitt forsvarsmenn skólans að Laugarvatni,“ segir Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

„Að sögn hafa þeir lagt fram margar tillögur til þess að efla og styrkja starfið á staðnum en talað fyrir daufum eyrum. Það er kaldhæðni örlaganna að „ríkisstjórn heimilanna“ eins og hún kallar sig og kennir sig við Laugarvatn skuli ætla að láta það viðgangast að setja eigi fjölda heimila í Bláskógabyggð í uppnám, að ríkisstjórnin sem ætlaði að hafa íslenska þjóðmenningu í hávegum og leggja áherslu á rannsóknir og fræðslu skuli ætla að slá af skóla sem hefur verið í fararbroddi í íþrótta og heilsufræðum á Íslandi síðan 1932,“ segir Páll Valur.

„Þetta er ríkisstjórnin sem leggur áherslu á mikilvægi íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmál og samþættingu leiks og náms eftir því sem kostur er og telur mikilvægt að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa. Nei þetta er frekar dapurlegt og við heyrðum í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin þvær hendur sínar af þessum gjörningi. Það hefur verið sterk samstaða hjá þingmönnum kjördæmisins í þessu máli og vonandi höfum við ekki sagt okkar síðasta orð og munum halda áfram að berjast fyrir frekari háskólastarfi á Laugarvatni.“

Fyrst og fremst dapurleg staðreynd
„Það er fyrst og fremst dapurleg staðreynd að Háskóli Íslands standi að því að leggja niður 84 ára sögu íþróttakennaranáms að Laugarvatni. Allir þingmenn kjördæmisins hafa átt í samskiptum við HÍ og komið þeim upplýsingum til þeirra að við myndum standa heilshugar við bakið á þeim að efla íþróttakennaranámið og/eða annað háskólanám að Laugarvatni og nýta þau tækifæri sem fram koma m.a í skýrslu sem HÍ lét gera,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sjá einnig: Ráðherra harðorður: „Hver þorir í samstarf við Háskóla Íslands?“

„Ljóst er að aðalástæða þess að aðsókn hefur minnkað er lenging námsins úr 3 árum í 5. Ekkert virðist hlustað á núverandi nemendur sem vilja að skólinn sé áfram að Laugarvatni vegna fagleg náms, ódýrar fyrir þau og öflugs samfélags nemanda. Þessi ákvörðun Háskólaráðs er mikið högg fyrir samfélagið að Laugarvatni Bláskógabyggð,“ segir Sigurður Ingi.

Háskólinn málaði sig út í horn
„Ég tel að með þessari ákvörðun hafi Háskólinn  málað sig út í horn með þær hugmyndir að sameina Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Skólanum er ekki treystandi fyrir að stuðla að háskólamenntun á landsbyggðinni. Ég harma þessi málalok,“ segir Ásmundur Friðriksson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.


Tengdar fréttir

Flaggað í hálfa stöng að Laugarvatni

Í bréfi frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, til starfsmanna segir að aðstaða skólans verði áfram nýtt í þágu háskólans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira