Lífið

Var búinn að telja mig af

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Arnbjörn við heimagerða prjónavél sem hann gerir hina flottustu trefla í. Hann notar borvélina sem spólurokk.
Arnbjörn við heimagerða prjónavél sem hann gerir hina flottustu trefla í. Hann notar borvélina sem spólurokk. Mynd/Jóhanna Valgerður

Hver er fyrsta minning þín, Arnbjörn? „Hún er um föðurömmu mína Þórunnbjörgu, hún var að reyta arfa við húsdyrnar og sagði: „Þar sem illgresið grær fyrir dyrum, þar á gestrisni ekki heima.“ Af henni lærði ég að hafa ávallt hreint í kring um mig.“

Hversu mörg voruð þið systkinin? „Við vorum tíu. Strákarnir sex og stelpurnar fjórar.“

Hafðir þú gaman af bústörfunum? „Þó svo að ég hafi stundað búskap hafði ég aldrei neitt sérstaklega gaman af honum.“

Hafðir þú uppáhald á einhverjum hesti? „Já, ég átti hest sem ég hafði mikið uppáhald á, hann hét Sörli og var gæðingur og mikill hlaupahestur.“Var kominn bíll í Svínafell þegar þú manst eftir þér? „Fyrsti bíllinn kom þangað tveimur árum áður en ég fæddist, það var Ford AA, árgerð 28, sem var fyrst SF- 27 en síðan Z-37. Pabbi átti hann en þegar við bræður gátum keyrt þá slógumst við um hver ætti að keyra!“

Manstu eftir sérstakri hættuför yfir Fljótin? „Þær voru margar og allar minnisstæðar. Eitt sinn var ég að ferja Mýramenn og Suðursveitunga yfir Austurfljótin á Ford-trukknum hans Gísla bróður sem var með háan pall. Ég var búinn að velja brot yfir, kem svo í lygnu, þar var svo djúpt að vatnið náði upp undir pallinn og bíllinn stoppaði í sandbleytu. Mér leist ekki á blikuna en með því að skaka bílnum fram og aftur losnaði hann og ég komst með allan hópinn í land.“

Hvað hefur þú aðallega fengist við um ævina? „Ég stundaði búskap í Svínafelli í tíu ár, flutti svo í Árnanes og fór að vinna í byggingavinnu hjá Guðmundi Jónssyni. Ég vann mikið á verkstæðum við að halda við vélum og tækjum. Síðar fór ég að vinna í línuvinnu hjá Rarik og líkaði mjög vel en varð að hætta vegna heilsubrests. Hef haft ánægju af að gera upp gamla bíla og dráttarvélar frá grunni.“

Hvert er áhugaverðasta ferðalag sem þú hefur farið í? Ég hef alltaf haft áhuga á flugi og tók flugmannspróf, vorum tólf sem tókum okkur saman og lærðum flug og fórum svo seinna saman til Kitty Hawk í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Ferðin var farin í tilefni 100 ára afmæli flugsins og við skoðuðum meðal annars flugvél Wright-bræðra sem var fyrsta flugvélin sem flaug fyrir eigin vélarafli og hafði menn innanborðs. Þetta var skemmtileg ferð.“

Hvenær varst þú í mestum lífsháska? „Ætli það hafi ekki verið þegar við Gísli bróðir fórum í eftirleit á Hálsum? Við fundum tvö lömb og á leiðinni til baka hrasaði ég á harðfenni og rann niður svona 200 metra, fór fram af svellbólstrum í gilinu, kom niður næstum á jafnsléttu á fleygiferð og reyndi að stoppa mig því fram undan var hengiflug ofan í Neðradalsvatnið. Ég náði steinnibbu sem stóð upp úr og gat krækt í hana og stoppað mig. Gísli stóð uppi á skriðunni og var búinn að telja mig af.

Einnig er mér minnisstætt þegar við Sigurbjörg systir fórum ríðandi á Pjakk gamla austur yfir Fljót, til að fara að læra sund í nýju sundlauginni á Höfn. Fljótin voru mikil og straumhörð, hesturinn lenti á sund og Sigurbjörg valt út á hlið, ég náði að halda henni og fyrir einhverja blessun náðum við landi, það varð okkur til lífs því hvorugt okkar kunni að synda.“

Hvernig ætlar þú að halda upp á afmælið? „Börnin mín ætla að halda mér veislu í Ekrunni hér á Hornafirði klukkan 18 í dag, laugardag. Allir eru velkomnir og gjafir eru afþakkaðar en andvirði vískíflösku væri vel varið í söfnun útivistarhjóls fyrir Skjólgarð.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira