Viðskipti innlent

Íslandsbanki kominn í ríkiseigu

Ingvar Haraldsson skrifar
Íslandsbanki er kominn í ríkiseigu að sögn framkvæmdastjóra Glitnis.
Íslandsbanki er kominn í ríkiseigu að sögn framkvæmdastjóra Glitnis. fréttablaðið/vilhelm
Glitnir hefur afhent ríkinu allt stöðugleikaframlag slitabúsins. Þetta segir Ingólfur Hauksson, framkvæmdastjóri Glitnis. Frá því hafi verið gengið í vikunni.

Það þýðir að Íslandsbanki er að fullu kominn í ríkiseigu. Stjórnvöld meta 95 prósenta eignarhlutinn í Íslandsbanka sem Glitnir afhenti á 185 milljarða króna og stöðugleikaframlag Glitnis í heild 229 milljarða króna. Samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins tekur Seðlabankinn við eignarhlutum sem slitabúin greiða ríkinu. Á Alþingi liggur fyrir lagafrumvarp þar sem kveðið er á um að sérstakt eignaumsýslufélag verði stofnað um stöðugleikaframlögin í umsjón Seðlabankans.

Ingólfur segir að meðal eigna sem hafi verið afhentar séu eignarhlutir í ýmsum íslenskum fyrirtækjum. Þar á meðal hlutir í Sjóvá, Reitum og lítill hlutur í Eimskip. Glitnir átti 13,67 prósenta eignarhlut í Sjóvá í gegnum félagið SAT eignarhaldsfélag hf. sem er tæplega 2,5 milljarða króna virði. Auk þess átti Glitnir 6,26 prósenta eignarhlut í Reitum sem metinn er á 3,8 milljarða króna.

Þá eru lán Glitnis til Reykjanesbæjar meðal þeirra eigna sem afhentar hafa verið ríkinu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið vildi ekki upplýsa um hver aðkoma ríkisins að viðræðum Reykjanesbæjar við kröfuhafa yrði í kjölfar þess. Ríkið hefur verið óbeinn aðili að viðræðunum þar sem Landsbankinn er einn kröfuhafa. Þá skuldar Reykjanesbær Íslandsbanka einnig talsverða fjármuni.

Á hluthafafundi í Glitnis í gær voru Norðmaðurinn Tom Grøndahl, Daninn Steen Parsholt og Bretinn Mike Wheeler kjörnir í stjórn eignaumsýslufélagsins. Þeir voru þeir einu sem voru í framboði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×