Handbolti

Bent Nyegaard: Besti leikur danska landsliðsins undir stjórn Guðmundar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson fagnar einu af mörgum mörkum danska liðsins í gær.
Guðmundur Guðmundsson fagnar einu af mörgum mörkum danska liðsins í gær. Vísir/EPA

Danir tryggðu sér sigur í sínum riðli og fullt hús inn í milliriðilinn þegar þeir unnu sannfærandi átta marka sigur á Ungverjum í gærkvöldi á lokadegi riðlakeppninnar á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi.

Danska pressan er mjög ánægð með leikinn og ekki síst með framgöngu íslenska þjálfara liðsins, Guðmundar Guðmundssonar. Guðmundur fékk að heyra það eftir að danska liðið rétt marði Svartfellinga í leiknum á undan en það er öllu skemmtilegra fyrir okkar mann að lesa dönsku blöðin í dag.

Bent Nyegaard, hinn virti handboltasérfræðingur TV2, hefur verið duglegur að gagnrýna íslenska landsliðsþjálfarann en Guðmundur fær ekkert nema hrós frá honum eftir leikinn í gær.

Bent Nyegaard gefur Guðmundi fimm í einkunn eða fullt hús. Þrír aðrir leikmenn liðsins fá sömu toppeinkunn eða þeir Casper U. Mortensen, Mikkel Hansen og Mads Christiansen.

„Besti leikur liðsins undir stjórn Guðmundssonar. Fullkomið skipulag danska liðsins sá til þess að Ungverjarnir voru áttu engin svör, hvort sem það kom að taktík eða hraðari fótum. Þjálfarinn keyrði upp hraðann í sóknarleik liðsins. Kannski ekki fullkominn leikur en strákarnir hans Guðmundssonar eru á leiðinni þangað," sagði Bent Nyegaard um Guðmund.

Bent Nyegaard hafði gagnrýnt það hvernig Guðmundur meðhöndlaði stórstjörnu sína Mikkel Hansen en Hansen var frábær gegn Ungverjum með níu mörk og tíu stoðsendingar. Nyegaard valdi hann bestan í danska liðinu.

Guðmundur fær ekki bara flotta einkunn hjá Bent Nyegaard heldur einnig hjá DR og hjá Ekstra Bladet.

Danir mæta Spánverjum í fyrsta leik milliriðilsins á sunnudaginn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira