Sport

McGregor um Jesú: Allt í góðu á milli okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
McGregor var að venju brosmildur á fundinum.
McGregor var að venju brosmildur á fundinum. Vísir/Getty

Conor McGregor var samur við sig á blaðamannafundi UFC í Las Vegas í gær. Þar var bardagi hans gegn Rafael Dos Anjos kynntur en þeir munu berjast um UFC-titilinn í léttvigt í mars.

McGregor er ríkjandi meistari í fjaðurvigt eftir að hann rotaði Jose Aldo eftir aðeins nokkrar sekúndur í desember. Gunnar Nelson barðist þetta sama kvöld en tapaði þá fyrir Demian Maia.

Sjá einnig: Conor rotaði Aldo á 13 sekúndum

„Ég mun klára hann á fyrstu mínútunni,“ sagði McGregor á fundinum og sagði að Dos Anjos væri hægari útgáfa af Aldo. „Hann er rónaútgáfan af Aldo. Ég mun draga höfuð hans í gegnum stræti Rio de Janeiro. Það verður skrúðganga og þjóðarhátíð í Brasilíu.“

Dana White á milli þeirra Dos Anjos og McGregor. Vísir/Getty

McGregor gerði lítið úr þeirri staðreynd að Dos Anjos hafi flutt frá Brasilíu til Bandaríkjanna og sakaði hann um að hafa yfirgefið heimaland sitt. Ólíkt Aldo sem getur snúið aftur til Brasilíu sem hetja þrátt fyrir tapið gegn McGregor.

„Við erum að senda Rafael í fjögurra daga fjölmiðlaferð til Brasilíu og við verðum að bóka hótel fyrir hann. Það þarf að bóka fyrir hann hótel í hans eigin landi. Honum verður aldrei tekið sem þjóðhetju því hann flúði Brasilíu.“

Sjá einnig: Conor berst um léttvigtartitilinn í mars

McGregor skammaði svo forráðamenn UFC fyrir að setja andlit Dos Anjos á sömu auglýsingu og hann. Síðasti bardagi McGregor hafi þénað 1,7 milljónir Bandaríkjadala fyrir UFC en Dos Anjos hafi barist í opinni dagskrá.

Dos Anjos neitaði að taka í hönd McGregor. Vísir/Getty

Þá var hann óhræddur við að bera sig saman við guði. „Ég og Jesús erum góðir. Það á við um alla guði. Guðir þekkja aðra guði.“

Sjá einnig: Keppir Conor McGregor í þyngdarflokki Gunnars í framtíðinni?

Dos Anjos gaf lítið fyrir ummæli McGregor og neitaði að taka í hönd hans eftir blaðamannafundinn. „Ég ber virðingu fyrir andstæðingum mínum og segi sannleikann. Þann 5. mars mun ég senda þennan mann dapran heim til sín og mun halda beltinu mínu.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira